Er að blogga héðan frá hótelinu í Arlington í Virginíu, óþægilega nálægt harmleiknum frá í gær. Það er auðvitað mjög mismunandi hvernig fólk bregst við svona atburðum, og auðvitað einkar fróðlegt að vera hér búsettur og pæla í hlutunum. Það er auðvelt að spurja sig hvenær sé komið nóg, hvenær lögin um byssueign verða hert og böndum komið á þetta brjálæði allt saman. Og maður sér fyrir sér forherta byssueigendur og NRA meðlimi, sem einhverskonar djöfla í mannsmynd. En svo bankar raunveruleikinn upp á hjá manni og hlutirnir verða flóknir.
Ég hitti í gær góðan kunningja úr prógraminu mínu sem var að taka munnlega prófið sitt í gær. Hafði ekki hitt hann síðan hann útskrifaðist sem svæfingalæknir. Hann er verulega skemmtilegur og virkaði liberal á mig, enda hafði hann gengið í University of Chicago eins og Meredith! Ég man því hvað ég varð fyrir miklum vonbrigðum með hann þegar ég komst að því að hann er Repúblikani, og enn versnaði álitið á honum þegar í ljós kom að hann átti skammbyssu. Jæja.
Og svo hitti ég annan góðan dreng, sem útskrifaðist með mér úr svæfingaprógraminu. Hann er með mér á kúrsinum og það urðu með okkur fagnaðarfundir þegar við hittumst og það var skrafað og hlegið og talað um gömlu góðu dagana úr náminu. Hann er mormóni, fjögurra barna faðir (eins og lög gera ráð fyrir), fluttur aftur heim til Salt Lake City, hlýlegur og góðlegur og lítur eins og saklaus norskur eða íslenskur sveitastrákur. Ég get nú ekki sagt að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum með að hann skyldi vera Repúblikani, það fer nánast alltaf saman með mormónatrúnni. En svo kom í ljós að hann er skammbyssueigandi og mikið á þeirri línunni allri saman. Og hann var einmitt fyrsti maðurinn sem ég sagði frá því sem var að gerast í gær, ég fékk fréttirnar í íslenska sendiráðinu og fór svo að borða hádegismat með honum.
Og hans viðbrögð við þessu vor dálítið sjokkerandi en kannski fyrirsjáanleg. Hann hristi hausinn yfir því sem var að gerast, minntist líka á skotárás sem varð fyrir stuttu í Salt Lake City og talaði síðan um að nú þyrfti hann að fara að fá sér leyfi til að bera skotvopn innanklæða (concealed weapon).