30.4.07

Vancouver


Við erum komin til Vancouver í Kanada í. Komum hingað með Eric og Melissa, ásamt sonum þeirra Simon og Owen. Það er þægilegt að fara í frí með þeim, þau þekkja vel til hérna þannig að við þurfum tiltölulega lítið að hafa fyrir hlutunum, fáum bara að fljóta með. Sennilega er allt satt sem sagt hefur verið um Vancouver, ofboðslega falleg borg og fjöllin í kring minna kannski á Noreg. Það er ekki tilviljun að fólkið sem vildi flýja þegar Kínverjar tóku við stjórn Hong Kong skuli hafa flutt hingað í stórum stíl. Það er eitt sem er sérstakt við byggingarstílinn hér. Háhýsin eru byggð þannig við hliðina á turnunum er gjarnan samtengd 1-2 hæða raðhúsalengja í sama stíl. Þetta skapar meira rými á milli bygginganna. Síðan eru gjarnan tré eða runnar ofarlega á þessum húsum. Fólkið er mjög vingjarnlegt og það virðist vera miklum minna stórborgarstress hér en ég átti von á.

27.4.07

Modest Mouse


Brá mér á tónleika í gærkvöldi með ofannefndri hljómsveit. Sú er af vesturströndinni (nema hvað!) og þeir hafa verið að spila í um 15 ár, en þykja nú með heitari indie böndum. Þeir efldust fyrir gerð síðustu plötu, fengu til sín Johnny Marr, sem var gítarleikari í ekki ómerkari hljómsveit en The Smiths.
En tónleikarnir voru góðir, þetta er þétt band og þeir rokkuðu feitt. Hógværa músin er langt frá því að vera hógvær að mínu mati. Þið getið hlustað á einn smellinn þeirra hér.
En sumt af því gamla sem þeir spiluðu var jafnvel enn betra.

25.4.07

Sicko


Michael Moore er að klára nýju myndina sína Sicko og hún verður sýnd utan keppni á Cannes hátíðinni. Það verður áreiðanlega hrikalega gaman að sjá hana. Hann hefur jafnan hljótt um sig á meðan hann er að búa til myndirnar sínar en hann segir að Sicko sé gamanmynd um 45 milljónir manna án sjúkratrygginga í ríkasta þjóðfélagi heims.

23.4.07

Sól og blíða, þrumur og eldingar!

Hér hefur verið algjör blíða í dag og í gær og hitinn fór í 20 - 25 gráður. Við vorum lengi úti á róló í dag og hittum Egil Bjarna og Einar Árna þar. Maður þurfti að grafa upp sólaráburðinn í morgun og stuttbuxur og derhúfur. Það var síðan búið að spá skúrum seinnipartinn og eftir kvöldmat ákváðum við Ólafur að fara út að hjóla. Sáum Chris vin okkar sitjandi úti á tröppum og fórum að tala við hann. Þá fór að rigna þannig að við fórum inn og ég græddi bjór á öllu saman. Síðan kom ægileg vindhviða og hjólið fauk um koll og síðan komu þrumur og eldingar. Við hjóluðum síðan eins og við drógum heim til að verða ekki alveg gegnblautir.

Ætli Gore láti vaða?

Það er alltaf verið að spá í það hvort að Gore bjóði sig fram til forseta. Nú síðast nefndi Bill Clinton þetta sem möguleika og ég rakst líka á það í NY Times að eitthvað fólk væri farið að tala við suma þeirra sem störfuðu fyrir hann þegar hann bauð sig fram síðast. Hann heldur áfram að neita, eða öllu heldur að halda spennu í þessu því að hann hefur í raun aldrei þvertekið fyrir að ætla að bjóða sig fram. Segir aldrei já, bara hálfvolgt nei.

Bruce vinur Meredith hringdi um daginn og var að segja af sér fréttir. Hann er hagfræðingur, útskrifaður frá University of Chicago og kennir við háskóla í Columbus Ohio. Honum datt í hug að skipuleggja þverfaglega ráðstefnu um sköpunargáfu. Hann hélt hana við Harvard þar sem hann hafði verið "post-doc" Eitthvað gekk illa að fá fólk til að vilja koma og tala í byrjun því margir voru skeptískir á þetta þar sem að þetta hafði ekki verið gert áður. En ráðstefnan tókst svona líka ljómandi vel og nú er einhver skóli búinn að hafa samband við hann og biðja hann að vera þeim innan handar við að setja saman nýja námsskrá.
En það er ekki nóg með það, nú síðast hringdi í hann fólk sem vinnur fyrir Barack Obama og spurði hvort hann vildi vera framboði Obama til ráðgjafar.
Vá - segi ég nú bara...

Endurvarpslaugin í Washington


Þarna erum við Finnur á frægum slóðum í Washington DC. Ég mátti hafa mig allan við að Finnur endurtæki ekki atriði úr Forrest Gump með því að vaða út í laugina. Við gengum þarna á bríkinni eftir henni endilangri. Það er komið nýtt minnismerki frá því að ég var síðast í Washington. Það er til minningar um heimsstyrjöldina síðari. Það er svo sem allt í lagi, en ekkert minnismerki slær út veggnum til minningar um þá sem féllu í Víetnam. Það var hannað af Maya Lin, sem þá var tutuggu ára gömul, nemandi í arkitektúr við Yale. Sólin skein svo í gegnum rigninguna á Washington Monument.

Dalalíf


Dalalíf er einstakt meistaraverk íslenskrar kvikmyndasögu. Það þarf ekki fleiri vitnanna við en drengina á þessari mynd sem skemmtu sér konunglega yfir henni og kútveltust um af hlátri. Þeir horfðu á hana þegar Egill Bjarni og Einar Árni gistu hjá okkur fyrir nokkru.

20.4.07

Finnur í þvottakörfunni


Klassískt myndefni.

Sex pistols hvað!


Ólafur Stefán nýklipptur.

17.4.07

Dagur hörmunga

Er að blogga héðan frá hótelinu í Arlington í Virginíu, óþægilega nálægt harmleiknum frá í gær. Það er auðvitað mjög mismunandi hvernig fólk bregst við svona atburðum, og auðvitað einkar fróðlegt að vera hér búsettur og pæla í hlutunum. Það er auðvelt að spurja sig hvenær sé komið nóg, hvenær lögin um byssueign verða hert og böndum komið á þetta brjálæði allt saman. Og maður sér fyrir sér forherta byssueigendur og NRA meðlimi, sem einhverskonar djöfla í mannsmynd. En svo bankar raunveruleikinn upp á hjá manni og hlutirnir verða flóknir.

Ég hitti í gær góðan kunningja úr prógraminu mínu sem var að taka munnlega prófið sitt í gær. Hafði ekki hitt hann síðan hann útskrifaðist sem svæfingalæknir. Hann er verulega skemmtilegur og virkaði liberal á mig, enda hafði hann gengið í University of Chicago eins og Meredith! Ég man því hvað ég varð fyrir miklum vonbrigðum með hann þegar ég komst að því að hann er Repúblikani, og enn versnaði álitið á honum þegar í ljós kom að hann átti skammbyssu. Jæja.

Og svo hitti ég annan góðan dreng, sem útskrifaðist með mér úr svæfingaprógraminu. Hann er með mér á kúrsinum og það urðu með okkur fagnaðarfundir þegar við hittumst og það var skrafað og hlegið og talað um gömlu góðu dagana úr náminu. Hann er mormóni, fjögurra barna faðir (eins og lög gera ráð fyrir), fluttur aftur heim til Salt Lake City, hlýlegur og góðlegur og lítur eins og saklaus norskur eða íslenskur sveitastrákur. Ég get nú ekki sagt að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum með að hann skyldi vera Repúblikani, það fer nánast alltaf saman með mormónatrúnni. En svo kom í ljós að hann er skammbyssueigandi og mikið á þeirri línunni allri saman. Og hann var einmitt fyrsti maðurinn sem ég sagði frá því sem var að gerast í gær, ég fékk fréttirnar í íslenska sendiráðinu og fór svo að borða hádegismat með honum.

Og hans viðbrögð við þessu vor dálítið sjokkerandi en kannski fyrirsjáanleg. Hann hristi hausinn yfir því sem var að gerast, minntist líka á skotárás sem varð fyrir stuttu í Salt Lake City og talaði síðan um að nú þyrfti hann að fara að fá sér leyfi til að bera skotvopn innanklæða (concealed weapon).

Frá Washington

Við erum stödd í Washington DC þessa dagana, þar sem ég er á ráðstefnu. Ég ákvað að kjósa í leiðinni og það vildi svo ótrúlega vel til að sendiráð Íslands er í byggingunni beint á móti hótelinu þar sem kúrsinn minn er. Þvílík heppni! Ég skellti mér að kjósa í hádeginu og var ekki lengi í þeirri ferðinni. Skrifstofa sendiráðsins er tiltölulega lítil og hófleg, en þó er stíllinn á öllu bæði nútímalegur og íslenskur. Þannig minnir skrifstofan að innan á hús hæstaéttar á Íslandi að utan.

Ég gat ekki betur séð en að þarna bíði hin smekklegasta sendiherraskrifstofa tilbúin handa Sigfúsi Ólafssyni eftir kosningarnar í vor......

11.4.07

Amazing Grace


Við skelltum okkur á bíó í gærkvöldi, sáum myndina Amazing Grace sem fjallar um baráttu breska þingmannsins William Wilberforce fyrir afnámi þrælaverslunar Breta í kring um aldamótin 1800. Alveg hreint mögnuð saga og vel gerð mynd. Ég gæti meira að segja mælt með þessari mynd handa mömmu, hvorki ofbeldi, klám né hávaði (eins og henni þykir flestar myndir og sjónvarpsefni vera). Bara stórgott pólitískt drama. Wilberforce barðist harkalega fyrir þessu máli, lagði það fram þing eftir þing en varð oftast undir. En réttlætið sigraði að lokum, ég ætla hinsvegar ekki að segja ykkur hvernig....

Myndin er samnefnd sálminum fræga, sem ég hélt í fáfræði minni að hefði verið saminn af amerískum þrælum. Svo er ekki, hann var saminn af John Newton sem var skipstjóri á þrælaskipi. Hann var einu sinni hætt kominn í miklu fárviðri á skipinu sínu Greyhound, og hélt að hann myndi sökkva með manni og mús. Komst heill til hafnar en varð trúaður eftir þessa reynslu og snérist seinna meir gegn þrælaversluninni. Hann varð að lokum prestur og hvatti Wilberforce áfram í baráttunni. En fortíðin sótti alltaf á hann, og í myndinni talar hann um að það fylgi sér tuttugu þúsund draugar látinna þræla hvert sem hann fer. Amazing Grace er uppgjör hans við fortíðina.

9.4.07

Út að hjóla


Við fórum út að hjóla í kvöld fjölskyldan og það var mjög gaman. Ólafur Stefán er nýbúinn að fá nýtt gírahjól og hann fór á því og ég var með Finn aftan í mínu hjóli í kerru. Við eigum heima rétt hjá skipaskurðinum fræga (Erie canal) og meðfram honum er stígur sem myndi endast í nokkurra vikna hjólreiðaferð. En við skelltum niður að Genesee ánni og það kom í ljós að það er stígur meðfram henni sem liggur í norður og suður og er um 90 mílur að lengd. Ekki amalegt. Nú þarf bara að fara að leggja á ráðin með smá ferð þar sem gist yrði eina nótt.

Annars hefur hér verið páskahret og elstu menn þurfa að hugsa aftur til sjötta áratugarins til að muna aðra eins tíð, en þá fylgdu með fellibylir meðfram austurströndinni og þurrkar á sléttunni í kjölfarið.