22.3.07

McJob

Nú ætlar McDonalds að fara í mál við Oxford orðabókina út af þessu orði og reyna að koma banni á að það komist inn nýjar útgáfur orðabókarinnar. Skemmtileg að velta því fyrir sér hvort að stórfyrirtæki geti, eða eigi að geta haft áhrif á tungumál og orðabækur. Það eru náttúrulega mörg dæmi um að orð tengd fyrirtækjum hafi verið tekin upp í tungumálinu sbr. Xerox, sem er nafnið á fyrirtækinu sem framleiddi upphaflegu ljósritunarvélina, er nú orðið að sögn, sem þýðir að ljósrita.
En hversvegna er McDonalds að þessu? Það kemur náttúrulega í ljós þegar skilgreining á orðinu er skoðuð:

McJob: A low-pay, low-prestige, low-dignity, low benefit, no-future job in the service sector.


18.3.07

Sigfús og Borat


Eiga þessir tveir, þeir Sigfús bróðir og Borat eitthvað sameiginlegt? Ég er sjálfur ekki frá því eftir að hafa fengið Sigfús í heimsókn. Nú er ég ekki að halda því fram að Sigfús sé illa upplýstur, fordómafullur, kven- og gyðingahatari. Þvert á móti. En í myndinni sést Borat einu sinni hlaupa nakinn um hótel. Ég skal ekkert um það segja hér hvort að Sigfús hefur einhverntíman gert svoleiðis, veit hreinlega ekkert um það, en hann gerði það nú sem betur fer ekki í Eastview Mall. Og hann stillti sig alveg um að rjúka á alla karlmenn sem hann sá og heilsa þeim með þrem kossum á kinnina. Það hefði getað orðið ljót sena ef hann hefði gert það, t.d. á Dinosaur BBQ, sem er svona fremur hrár grillstaður, vinsæll meðal mótorhjólatöffara og fleiri. Það er samt eitthvað sem er dálítið bóratískt við hann Sigfús og ég held ég sé búinn að átta mig á því hvað það er. Þeir eiga það sameiginlegt að vera nánast alltaf í góðu skapi, glaðlegir og hlýir í viðmóti. En það sem ég held að sé aðalatriðið er sá eiginleiki þeirra beggja að vera lausir, alltaf og undir öllum kringumstæðum, við það sem kallað er feimni og hrjáir c.a. 99% mannkyns, mismikið þó. Þeir virðast báðir bara vera lausir við þetta. Og það var það sem gerði það að verkum að mér fannst ég vera að upplifa atriði úr Borat í einni búðinni í Eastview Mall. Sigfús var bara svona opinn og ófeiminn að skoða sig um forvitnast um forláta espresso vél, og ég tók eftir því að það kom dálítið hik á sölumanninn, rétt eins og hann vissi ekki alveg hvernig hann ætti að taka á þessum glaðhlakkalega útlendingi.
En þetta er góður kostur, enda hafa þeir báðir náð fádæma langt í lífinu þeir Borat og Sigfús.
Kannski Sigfús fari nú að láta sér vaxa hormottu.

17.3.07

St. Patrick's Day

Við fórum í messu um síðustu helgi og í lok messunar steig father Jim Callan í pontu og lagði sérstaka áherslu á að menn héldu einn tiltekinn dag hátíðlegan þessa vikuna. Hann sagði ekki meir, en snéri höklinum við og hann var allur grænn á þeirri hliðinni. Það þurfti ekki meira til, græni liturinn sagði allt sem segja þurfti. Hann ráðlagði fólki meira að segja að taka sér frí frá föstunni og skemmta sér ærlega...
Í dag er sem sagt þjóðhátíðardagur Íra, St. Patrick´s day, og við höldum að sjálfsögðu upp á hann, enda eru drengirnir að fjórðungi Írar, þar sem að langömmur þeirra báðar í móðurætt eru írskar.
Í Chicago lita þeir ána græna, og það eru haldnar skrúðgöngur víða, borðaður írskur matur og drukkinn grænn bjór. Við höfum oft farið og séð skrúðgönguna hér og þær eru verulega skemmtilegar, en í ár brast á með hríð og stormi þannig að ég held að öllu verði frestað. Vonandi fer skrúðgangan fram um næstu helgi ef vel viðrar.
Læt þetta fylgja með í tilefni dagsins:

An old Irish blessing:

May the road rise up to meet you.
May the wind always be at your back.
May the sun shine warm upon your face,
and rains fall soft upon your fields.
And until we meet again,
May God hold you in the palm of His hand.

15.3.07

Grænmetisnjósnir

Sigfús bróðir og Magga mágkona voru hér í heimsókn í tvo daga. Magga var að koma til okkar í fyrsta skipti en Sigfús hefur komið áður. Við fórum með þau á hefðbundna staði eins og Dinosaur
BBQ. Og það var ekki annað hægt en að fara með þau í Wegmans matvörubúðina sem þykir ein af þeim flottari hér í Bandaríkjunum. Grænmetisdeildin er stærri en meðal kaupfélag og Sigfús var þarna mættur í forstjóragallanum, vopnaður stórri myndavél, sem hann beindi að salatinu og fór að smella af í gríð og erg. Þá vatt sér að honum starfsmaður verslunarinnar og bað hann vinsamlegast að hætta að taka myndir, það væri nefnilega bannað! Þeir hafa greinilega haldið að Sigfús væri að njósna fyrir keppinautana. Við hefðum náttúrulega átt að útskýra fyrir þeim hvaðan hann væri og að svona væri ekki til heima hjá honum....

6.3.07

Nýjar kojur



Við keyptum kojur handa strákunum og þeir eru alsælir með það allt saman. Ólafur Stefán er að sjálfsögðu í efri kojunni og Finnur í þeirri neðri. Hérna er mynd af Finni í sinni koju og síðan er mynd af skilti sem Ólafur skrifaði og hengdi upp á herbergishurðina. Þar segist hann ætla að rukka fyrir aðgang að sinni koju!