28.2.07

Næsta stríð: Er 2007 = 1938?

Rannsóknablaðamaðurinn Seymour M. Hersh birti grein í The New Yorker um ástandið í kringum Persaflóann og hugsanlegt stríð við Íran. Ég heyrði síðan í gær mjög athyglisvert viðtal við hann í þættinum Fresh Air á NPR. Hann segir að Bandaríkjastjórn sé í raun farin að styðja öfgasinnaða súnnítahópa, t.d. í Líbanon. Þetta kann að hljóma undarlega þar sem að sumir þessara hópa hafa tengsl við Al-Qaeda! Þess vegna fer þetta mjög leynt, og þingið veit ekki af þessu (svipað og Íran-Contra málið). En Bandaríkjastjórn er þessa dagana hræddust við upgang sjítamúslima, þ.e. Írans og Hezbollah í Líbanon. Súnnítamúslimum þykir sér einnig vera ógnað af þessum uppgangi Írans og þess vegna eru þeir, t.d. Sádarnir, í liði með Bandaríkjunum í að styrkja þessa hópa til að hefta uppgang Hezbollah.
Það var stofnaður hópur innan Hvíta Hússins sem gerði árásaráætlun á Íran. Þeir vilja hafa það þannig að ef Bush tekur ákvörðun um árás, þá geti hún hafist innan sólarhrings. Stjórnin vildi meira að segja geta notað kjarnorkuvopn (the nuclear option), en það var ekki sett inn vegna þess að svo margir hótuðu að segja af sér ef það yrði haft með sem möguleiki.

Og hver er driffjöðurin á bak við þetta allt saman? Jú það er auðvitað Dick Cheney.
Hann telur næsta öruggt að Íran muni verða sér úti um kjarnorkuvopn og muni ekki hika við að beita þeim gegn Bandaríkjunum og/eða Ísrael. Það muni þeir gera í gegnum Nasrallah og Hezbollah. Þeir telja að Hezbollah séu með sellur hér í Bandaríkjunum sem eigi eftir að fá þessi vopn og sprengja þau hér. Cheney þykir ástandið núna líkjast því sem var 1938 þegar Hitler var að byrja að ráðast inn í Tékkland. Hann telur að ef gripið hefði verið í taumana strax þá hefði það sem á eftir kom orðið allt öðruvísi en varð. Hann ætlar sko ekkert að bíða og sjá hvað gerist, ekki frekar en með Írak.

Það er auðvitað skelfilegt til þess að hugsa að þeir séu svona vel á veg komnir með að undirbúa árás á Íran. Gárungarnir segja að nú sé búið að endurvinna allt talið og rökin sem leiddu til innrásarinnar í Írak, með því að skipta allsstaðar út Q og setja bara inn N, og Bush sé nú farinn að undirbúa stríð með fréttafundum og yfirlýsingum.

En hver verður utanríkisráðherra á Íslandi næst þegar einhver undirtyllan hringir úr bandaríska sendiráðinu og spyr hvort við verðum ekki örugglega með á lista hinna viljugu og hlýðnu? Verður enn bananabragð af utanríkisstefnunni okkar, eða verður komið eitthvað nýtt og ferskara?

22.2.07

Vetrarríki



Hér hefur verið heilmikill vetur eins og þið hafið kannski heyrt í fréttum. Mér finnst samt að þetta hljóti að verða stuttur og auðveldur vetur vegna þess að það var autt og hlýtt alveg fram yfir nýár.

14.2.07

Dead Man Walking

Ég man hvað þessi mynd, Dead Man Walking hafði mikil áhrif á mig á sínum tíma. Ég keypti diskinn með tónlistinni úr myndinni, og seinna keypti ég bókina sem myndin byggir á. Hún er eftir Helen Prejean, nunnu sem fylgir og reynir að hjálpa og bjarga fanga sem dæmdur var til dauða fyrir hroðalegan glæp. Hann var sendur í rafmagnsstólinn í bókinni (og í raunveruleikanum), en í myndinni breyttu þeir því og þar var hann tekinn af lífi með lyfjum í æð. Það er athyglisvert að þeir skyldu breyta frá raunveruleikanum í myndinni, vildu ekki að fólk myndi geta sagt að svona hafi verið gert þá, en aðferðin sé miklu "mannúðlegri" í dag. Ég man að það fór sérstaklega illa í mig persónulega að sjá þegar þeir settu upp hjá honum nálina í myndinni. Mér fannst svo óhugnalegt að það væri verið að gera eitthvað, sem ég geri á hverjum einasta degi í vinnunni, í þeim tilgangi að taka einhvern af lífi.

Það var grein í NY Times Magazine um helgina um þessa aftökuaðferð, þ.e. "Lethal injection". Er nokkuð hægt að hugsa sér þægilegri dauðdaga en að líða bara útaf og sofna svefninum langa án þess að finna nokkuð til? Er þetta ekki "mannúðlegasta" aðferð sem til er? Það er það sem fólki hefur verið talið trú um, en raunveruleikinn er því miður ekki alltaf þannig, hann er flóknari og erfiðari. Málið er nefninlega það að í flestum fylkjum er ekki vant heilbrygðisstarfsfólk sem framkvæmir þessar aftökur, heldur oft á tímum óvant og illa þjálfað lið, nú eða þá læknar, sumir hverjir með vafasaman bakgrunn. Þetta, að setja upp nál og innleiða svæfingu er akkúrat á mínu sérsviði, en kollegar mínir, þ.e. svæfingalæknar hafa verið ákaflega tregir til að taka þátt í aftökum. Enda stríðir slíkt gegn læknaeiðnum og flest fagfélög lækna hafa ályktað gegn því að læknir leggi nafn sitt við slíkt.
Ef slík aftaka á að takast þarf fernt til. Í fyrsta lagi þarf að setja upp nál, sem getur verið erfitt, t.d. hjá þeim sem hafa verið sprautufíklar, eða þá bara ef fólk er stressað! Hvorutveggja getur augljóslega átt við í þessu tilfellum. Síðan þarf að draga upp og blanda þrenn lyf, og gefa á réttan hátt. Fyrst er gefið pentothal, sem er svæfingalyf. Það kemur í duftformi og þarf að leysa upp. Síðan er gefið vöðvalamandi lyfið pancuronium til að fanginn sjáist ekki hreyfa sig eða engjast, og síðast er gefið kalíum í háum skammti sem veldur hjartastoppi. Það hafa verið að koma upp mál þar sem þetta hefur klúðrast á hrikalegan hátt. Í einu tilfelli var æðaleggurinn ekki inni í æðinni heldur undir húðinni eða í vöðva, og þá veldur kalíumið hrikalegum sársauka og bruna. Það tók þann fanga meira en 30 mín að deyja. Í einu tilfelli var læknir til staðar, ekki til að taka þátt í aftökunni, heldur til að staðfesta andlát. Þegar hann ætlaði að gera það kom í ljós að fanginn dró enn andann, sá sem hafði framkvæmt aftökuna dró öll lyfin upp í eina sprautu þannig að úr varð einn stór kökkur og aftakan klúðraðist. Þá varð einum lækni að orði, sem einhverntíman hafði komið að því að skipuleggja hvernig slík aftaka gæti farið fram "It never occured to me when we set this up that we´d have complete idiots administering the drugs."
En er þetta hrikalega klúður slæmt, eða kannski það besta sem komið gat fyrir í umræðunni um dauðarefsingar? Ætti kannski að skikka fagfólk í að gera þetta þannig að fangarnir þurfi ekki að þjást, eða á heilbrygðisstarfsfólk alfarið að neita að taka þátt í aftökum? Á að afturkalla lækningaleyfi, og eða aðild þeirra lækna að fagfélögum sem framkvæma aftökur?
Þetta klúður hefur orðið til þess að búið er að slá á frest öllum aftökum í 12 af þeim 38 fylkjum sem enn heimila dauðarefsingu. Í Kaliforníu var dómari fenginn til að fara ofan í saumana á þessum málum. Það stóð til að taka fanga af lífi og þessi dómari gaf þá tilskipun að það mætti einungis gefa honum svæfingalyfið pentothal og láta hann deyja þannig, en ekki pancuronium og kalium. Tveir læknar áttu að vera viðstaddir aftökuna. Kvöldið fyrir aftökuna kom í ljós, að samkvæmt tilskipun dómarans urðu þessir tveir læknar að vera til staðar og grípa inn í ef eitthvað færi úrskeiðis (ef t.d. kæmi í ljós að æðaleggurinn virkaði ekki). Þegar þetta kom í ljós neituðu læknarnir (báðir svæfingalæknar) að taka þátt og aftökunni var frestað. Síðan hefur enginn verið tekinn af lífi í Kaliforníu.

Skyldi þetta vera upphafið að endinum á dauðarefsingum í Bandaríkjunum? Það væri náttúrulega frábært. Í greininni var talað um að á slíkan hátt hafi dauðarefsingar verið lagðar af í Evrópu, framkvæmdin var það sem raunverulega varð til þess að þeim væri hætt, miklu fremur en að farið hafi fram umræða um hvort dauðarefsingar ættu yfir höfðu að tíðkast.

Og að lokum. Hversvegna er talað um aftökur og að fangar séu teknir af lífi, t.d. í fréttum Moggans og RÚV? Er dráp ekki dráp?