29.10.07

Draumalandið - sólsetursmynd


Þessi mynd er af Draumalandinu, heiðunum í Norður-Þingeyjarsýslu. Mamma og pabbi segja alla vegana að Draumalandið eftir Jón Trausta sé þjóðsöngur Norður-Þingeyinga. Lagið var sungið við jarðarför afa. Horft er af Öxarfjarðarheiði til vesturs.

23.10.07

Þessi rafrænu líf


Ég rakst á hljómsveit á netinu sem mér þykir skemmtileg fyrir um einu til tveimur árum síðan. Hún heitir These Electric Lives og er að handan. Þ.e.a.s handan við pollin, hinum megin við Lake Ontario eða sem sagt Toronto.

Tónlistin sem þeir spila er einhverskonar dúndrandi dansvænt rafrænt indie rokk. Eitt lag myndi duga vel til að klára eitthvert ömurlegt verkefni eins og að þrífa eitt herbergi eða jafnvel heila hæð.

Þeir hafa verið vel varðveitt leyndarmál, svo vel að ég hef bara getað hlustað á þá á netinu. Um daginn heyrði ég síðan í þeim á útvarpsstöð hér í Rochester og sá að þeir eru búnir að gefa út plötu. Ég fór og pantaði diskinn af netinu því ég hef ekki fundið í plötubúð hér. Ég bíð spenntur eftir sendingunni. Í morgun sá ég síðan að þeir eru komnir á itunes.

Mæli eindregið með lögunum Keep Love Safe og We Should Be Believing.

Hérna er heimasíðan þeirra þar sem hægt er að hlusta á lögin og þeir eru náttúrulega líka á myspace.

22.10.07

Wal-Mart leikurinn

Það eru náttúrulega engin takmörk fyrir því hvernig gert er grín að okkur Nascar pöbbum og okkar menningu. Ég rakst nýlega á þessa síðu með Wal-Mart leiknum. Hann fer þannig fram að tveir keppendur fara inn í Wal-Mart búð með blýant og blað í hendi og lista yfir sérkenni og einkenni fóks sem þar vinnur og verslar. Sá sem nær að "greina" fleiri atriðið og merkja við á listanum á hálftíma vinnur.
Hér er listinn yfir það sem leitað er að:
-Animal bite
-Barbed wire bleeding
-Bee sting
-Black eye
-Blacking out
-Blood stain
-Botched skin graft
-Broken bone
-Bucked dentures
-Buckshot dimples
-Butane rash
-Camel hack
-Carburetor burn
-Chigger bites
-Chipped teeth
-Cigarette hole
-Corn chip toenails
-Creeping crud
-DT's
-Elephantiasis
-Face raisin
-Female bald spot
-Funking whistle
-Gasping for air
-Harelip
-Hatchet gash
-Healing tattoo
-Horseshoe bruise
-Lockjaw
-Neck brace
-Neck brace with Nascar sticker
-Neck vent
-Neck vent with bug guard
-Nicotine patch tan line
-One Herman Munster shoe
-Open sore
-Polio limp
-Powder burns
-Protruding forehead
-Radical obesity
-Rickets
-Ring worm
-Shingles
-Shrieking in pain
-Smoker's squint
-Splint
-Stinking cough
-Sweet potato arm
-Teeth like the top of a castle
-Vomit beard
-Weeping sore


21.10.07

Dalai Lama

Eins og þið kannski vitið var Dalai Lama á ferð í Washington.

Skv David Letterman bankaði hann upp á í hvíta húsinu og Bush kom til dyra. Bush sagði undir eins - bíddu aðeins, ég hleyp og næ í nammi.....

Kínverjar eru ekki par ánægðir með það að hann skuli fá svona góðar viðtökur í Washington og í NY Times var teiknimynd þar sem karlarnir sem stjórna Kína sátu við borð og voru að ræða hver viðbrögð þeirra ættu að vera við þessu. Þá sagði einn. Bíðið þið bara þangað til þeir komast að því hvað við settum í tannkremið þeirra núna....
(Það fannst kínverskt tannkrem með eiturefnum í hér fyrir ekki svo löngu síðan)

Þannig er það nú hjá því.

Myndir af ströndinni 8. október



Hefðum sennilega getað farið aftur í dag. Það var 25 stiga hiti.

20.10.07

Sá en heyrði ekki



Ég hef einfaldan tónlistarsmekk. Undanfarið hef ég getað lifað nokkurs konar sníkjulífi á tónlistarvali Zach Braff (leikara í Scrubs). Ef hann mælir með einhverju þá eru góðar líkur á að mér þyki það áheyrilegt. Ég sá um daginn að hann mælti með
Ingrid Michaelson
. Hún hefur verið að gera það gott undanfarið, átti m.a. lag í Grey´s Anatomy og hefur verið að mæta og spila í spjallþáttum í sjónvarpinu. Ég skellti mér á itunes og fékk mér lagið The Way I Am. Síðan sá ég að hún var að koma til Rochester til að hita upp fyrir einhvern annan. Ég skellti mér á tónleikana en því miður var hún búin að spila þegar ég mætti. Komst ekki að því fyrr en ég var búinn að hlusta á hitt upphitunarbandið sem var hljómsveit frá Kaliforniu. Þeir voru sæmilegir, en ekki nógu reiðir, allt of kátir. Það er náttúrulega ekki eðlilegt að opna húsið klukkan 7 og vera búin með upphitunarnúmer fyrir háttatíma barnanna.Ég var síðan eitthvað að vafra þarna um og fór og keypti diskinn hennar. Fannst ég eitthvað kannast við stelpuna sem var að selja og þá var þetta auðvitað hún sjálf. Diskurinn er mjög góður, rennur bara ljúft í gegn. Maður þarf ekkert að vera að skippa yfir óþolandi lög. Kannski smá Norah Jones fílingur í þessu en samt ekki eins jassað.


Zach Braff mælti líka með öðrum sem er fínn og heitir
William Fitzsimmons
. Hann er frá Pittsburg og alinn upp af foreldrum sem bæði eru blind. Mæli með laginu hans Funeral Dress.

Þau hafa stundum verið með tónleika saman og það væri náttúrulega frábært að komast á svoleiðis.

17.10.07

Andlát

Þá er hún amma mín frá Gunnarsstöðum dáin, hún lést á FSA. Hún var búin að lifa langri og góðri ævi og var alltaf jafn hress, kraftmikil, bjartsýn og kát. Það var gott fyrir okkur fjölskylduna að fá tækifæri til að eiga góðar stundir með henni í ágúst í kjölfar jarðarfarar afa. Hún var náttúrulega elskuð og virt og dáð af allri fjölskyldunni og fékk held ég mikið að finna fyrir þeim stuðningi og væntumþykju. Fólkið hennar var hjá henni nánast öllum stundum eftir að hún fékk heilablóðfallið og þær eru nú heldur betur búnar að standa vaktina þær systur mamma og Aðalbjörg í veikindum hennar og þeirra beggja. Ég ætla að koma heim á jarðarförina sem verður laugardaginn 27. október.

15.10.07

SJS og SMS

Steingrímur frændi var hér í heimsókn yfir helgina. Ég frétti af honum á þingi sameinuðu þjóðanna í NYC þannig að ég hringdi í hann og bauð honum í heimsókn. Það var náttúrulega mjög gaman og mikið skrafað og rætt. Hann fór út að hlaupa í gær meðfram skipaskurðinum, niður að ánni og alveg niður í miðbæ og aftur hingað heim. Kraftur í karlinum eins og alltaf. Og svo hringdi síminn hans meðan hann var úti að hlaupa og mér datt í hug hvort ég ætti ekki að svara fyrir hann og hleypa öllu upp í stjórnmálunum heima.

Auðveldast hefði náttúrulega verið að senda bara nokkur SMS úr símanum hans:

"Til í allt án Sollu - Íþróttaálfurinn" (til Össurar)
"Villi spillti var bara sá fyrsti. Þú sprengir Geir út úr stjórnarráðinu. Talk to me." (sent til ISG)
"Þér er ekki stætt á að vinna með Sólrúnu fyrst Dagur tók borgina. Hringdu í mig" (til forsætisráðherra)
"Þinn tími er kominn. Til í allt án Geirs - SJS" (til Þorgerðar Katrínar)
"Er ekki tími til kominn að sprengja?" - SJS" (til allra þingmanna samfó)
"Þorirðu núna að verða bæjarstjóri?" (til leiðtoga S á Akureyri)
"Þú nennir þessu ekki hvort eð er. Þú ferð í bankann." (til forsætisráðherra)
"Erum á leið til London, viltu far? Glitnir" (sent til forseta lýðveldisins)
"Hættu nú að gráta greyið" (sent til Gísla Marteins)
"Tíminn líður, þotan bíður, hvert skal halda? Kaupthing." (til forseta lýðveldisins)

14.10.07

Er ekki allt í lagi?

Nú er hart sótt að heiðri okkar NASCAR aðdáenda.
Homeland security fór nýlega að spá í smitsjúkdóma og hvernig þeir geta dreifst og smitast í stórum hópum. Þeir sendu nokkra kalla út af örkinni (les: þeir yfirgáfu Washington) og létu þá skoða þetta. Og það er náttúrulega auðvelt að ganga að því vísu að stórir hópar fólks séu saman komnir á stórum og merkilegum íþróttaviðburðum eins og NASCAR keppnum. Þessvegna fóru þeir á Talladega keppnina og á aðra í Charleston. Í sjálfu sér ekki í frásögur færandi og allt í lagi nema fyrir það að þeir létu bólusetja sig fyrir öllum mögulegum og ómögulegum smitsjúkdómum áður en þeir fóru, svo sem Hepatitis A og B, diphteria og ýmsu fleiru. Það mætti halda að þeir hafi verið á leiðinni í dýpstu innviði Amason frumskógarins.

Þeir þorðu sem sagt ekki að koma og umgangast okkur nema vera bólusettir fyrst.
Bara hálfvitar þarna í DC. En við vissum það nú svo sem alltaf.

12.10.07

WT?

Jæja.

Trampólínið hefur vakið mikla lukku eins og ég greindi hér frá en þó hafa því fylgt nokkrar "aukaverkanir". Þannig höfum við komist að því að við höfum færst skörinni neðar í þjóðfélagsstiganum hér eftir að við keyptum það. Þetta þykir greininlega dálítið hættulegt leikfang og þykir ekki sæmandi fólki í okkar stöðu að eiga svona. Ég komst að þessu þegar ég var að tala um það við forledra vina Ólafs að bjóða krökkunum heim að hoppa á trampólíninu. Ein mamman tók alveg andköf yfir þessu og var greinilega mjög lítið spennt fyrir að komað með barnið sitt í heimsókn. Þetta var einkar fyndið í ljósi þess að við stóðum öll og vorum að tala saman fyrir utan salinn þar sem að börnin okkar voru í FIMLEIKATÍMA!

Meredith fékk síðan eins viðbrögð þegar hún var í mat á spítalanum. Pógramstjórinn hennar var næstum búin að snúa sig úr hálsliðnum af vandlætingu þegar Meredith greindi henni frá þessu dótavali okkar handa drengjunum.

En fyrst maður er á annað borð farinn að versla dót framleitt í Kína sem er selt í Walmart þá er kannski bara eins gott að nota tækifærið og gangast við sínum innra manni. Ég er sem sagt svona redneck eða white trash náungi. Nú þarf ég bara að selja rafmagnsknúna hrísgrjónabrennarann og fá mér almennilega "Truck" (Ford eða Dodge Ram pickup, ekki double cab), selja húsið og kaupa "Double wide" hjólhýsi. Síðan er bara að setja kántrí á fóninn, setja ameríska fánann fyrir utan dyrnar og sjást aldrei heimavið öðruvísi en með Miller eða Bud í annari hendinni og hamar eða byssu í hinni. Ýstran verður eftir þetta kölluð bjórvömb og henni fylgja viðeigandi "Love handles". Þarf síðan að fara aftur í Walmart og kaupa mér "plaid" skyrtu og Wrangler gallabuxur sem n.b. eru framleiddar í Kína. Spurning hvernig merki á að vera á derhúfunni -kannski Nascar eða Indie 500?

Annars fylgdu svo margar varúðarreglur með trampólíninu að ég beið bara eftir að lesa einhversstaðar: NO JUMPING!

10.10.07

Nýrnasteinar og fótbolti

Var að vinna á nýrnasteinabrjótinum í dag og það var ágætt. Þvagfæraskurðlæknirinn, Dr. Glazer var hinn viðkunnanlegasti og góður að vinna með. Hann er svona extróvert gæi, ekkert feiminn við að segja sögur af sjálfum sér og konunni sinni og tiraunum þeirra til barneigna svo dæmi sé tekið. Skemmtilegt fólk svona extróvert. Hann sagði líka frá því hvernig hann reykir í laumi og er alltaf að reyna hætta en byrjar jafnan aftur. Síðan var verið að tala um amerískan fótbolta. Bróðir einnar hjúkkunnar er þjálfari í og síðan kom í ljós að frændur Glazers eiga Tampa Bay Buccaneers, þannig að hann fær oft að skreppa með þeim í einkaþotunni á leiki.

Síðan barst talið að Íslandi og Evrópu og þá sagði hann mér að frændur sínir töluðu oft um hvað Ísland væri fallegt séð úr einkaþotunni, þeir höfðu oft flogið þar yfir. Þeir eigan nefnilega eitt stykki enskt fóboltalið, eða eins og hann orðaði það -
"Have you ever heard of Manchester United?" Ehm, jú - kannski einu sinni heyrt á félagið minnst! Ég var náttúrulega dolfallinn og spurði hvort hann hafi ekki farið á leik. Hann hefur ekki gert það en á sannarlega inni boð um slíkt. Hann virtist eitthvað hikandi við að vilja fara á leiki og við fórum að tala um bresku fótboltabullurnar og það allt saman. En það var meira en það sem hann var að spá í. Frændur hans reyna eftir megni að ferðast ekki undir eigin nafni þegar þeir fara til Englands. Þeir eru svo hataðir af áhangendum liðsins að þeir eru í hreinni lífshættu á Englandi. Þeir urðu eitt sinn að flýja í lögreglufylgd undan þessu liði (eigin liði?) Ótrúlegt en satt. Hann skellti sér inn á Google og sló inn love United hate Glazer og þá kom upp fullt af heimasíðum og varningi. Það er meira að segja til heimasíða sem heitir loveunitedhateglazer.com

Það er náttúrulega vandfundið ruglaðra lið en enskar fótboltabullur en þeir eru reiðir og sárir yfir því að liðið þeirra skuli hafa verið keypt af amerísku billum sem ætla sér kannski bara að draga peninga út úr félaginu og láta síðan áhangendur liðsins borga fyrir kaupin með hækkunum á miðum og öllu dótinu sem þessu fylgir. Bullurnar ætla ekki að hætta með lætin fyrr en félagið verður komið í eign stuðningsmanna þess.

En þarna sjáið þið, það getur verið tómt vesen að vera ríkur.

9.10.07

Í sól og sumaryl

Það var svo heitt í Chicago í gær að þeir urðu að aflýsa maraþonhlaupinu eftir að einn hlauparinn lést vegna hitans. Við notuðum tækifærið og skelltum okkur á ströndina! Fórum seinnipartinn og vatnið er enn ekki farið að kólna þannig að þetta var fínt. Ólafur og vinur hans busluðu í vatninu og Finnur var sæll og glaður í sandinum með fötu og skóflu.

6.10.07

Hamingjan er trampólín


Við létum til leiðast þegar við komum heim frá Íslandi og keyptum trampólín. Leituðum vel og lengi og fundum það síðan auðvitað í Walmart. Nema hvað? Settum það síðan saman og það hefur vakið mikla lukku og er mjög vinsælt. Nú eru loksins komin almennileg not fyrir garðinn okkar, trampólínið fyllir upp í hálfan bakgarðinn.
Veðrið hefur líka verið með ólíkindum gott. Maður var sveittur í dag á stuttbuxum og bol. Hitastigið hefur verið "in the 80's" og nú er ég orðinn svo amerískur að ég nenni ekk að umreikna yfir í Celcius.

5.10.07

Prófið

var erfitt eins og við var að búast. Nú er bara að naga neglurnar þangað til að ég fæ út úr því eftir mánuð. Ég náði að hitta George vin okkar og fara með honum út að borða. Hann er prófessor við University of Texas - Austin.
Borgin er mjög skemmtileg, fjölbreytt og fjörug og grösug. það rignir meira þarna en ég hélt, þetta er ekki jafn þurrt og vestur Texas og New Mexico. Þarna er mikið um alternative culture og allt sem því fylgir eins og t.d. líflegt tónlistarlíf. Þarna sá maður hús sem eru í svipuðum stíl og nýju húsin heima, allt kassalagað og meira að segja stundum klætt með bárujárni. Ég sem var farinn að halda að þessi stíll væri ekki til í Norður Ameríku, væri nánast bannaður. Ég hélt að það stæði einhvers staðar í stjórnarskránni að öll ný hús ættu að vera eins.

Flugvöllurinn var sá skemmtilegasti sem ég hef farið um. Hann er nýr og ekki yfirþyrmandi stór. Þar eru þeir trúir mottóinu sín (keep Austin weird) og leyfa engar stórar keðjur, þannig að þar var hvorki Hudson News, Mc Donalds eða Starbucks, bara skemmtilegir staðir sem upprunnir eru í Austin.

Þá er maður sem sagt búinn að heimsækja Austin. Aðrar borgir sem maður hefur heyrt að séu með svipuðum blæ og þykja mjög spennandi eru Boulder Colorado, og Asheville North Carolina.

2.10.07

Austin Texas

Er á leið til Austin Texas í munnlega prófið í svæfingunum. Prófið er erfitt, tvær hálftíma tarnir þar sem maður er tuktaður til af 2 grafalvarlegum prófdómurum.
Spurningarnar eru þannig að oft er enginn möguleiki góður, allir hafa sína galla.

T.d.
Þú ert á vakt og kvensjúkdómalæknirinn vill gera keisara á konu sem gengin er 33 vikur og er með meðgönguháþrýsting. Hvort ætlarðu að svæfa hana eða mænudeyfa? Hm - ég veit að það er hættulegra að svæfa óléttar konur en annað fólk vegna þess að slímhúðirnar eru bólgnari og meiri hætta á blæðingum og það getur farið mjög illa ef eitthvað klúðrast með öndunarveginn. Síðan getur blóðþrýstingurinn farið upp úr öllu valdi við svæfinguna þar sem hún er með meðgönguháþrýsting og það getur valdið heilablóðfalli. Þannig að ég ákveð að mænudeyfa. Þá segja þeir mér væntanlega að blóðflögurnar séu lágar þannig að þá er aukin hætta á blæðingu inn á mænuna og lömun. Ég ákveð samt að mænudeyfa þar sem að hættan á blæðingu við deyfinguna er svo lág. Þá fæ ég væntalega háa mænudeyfingu (total spinal) sem gerist sjaldan (en mjög oft á munnlega prófinu) og veldur því að konana dofnar upp fyrir haus og hættir að geta andað og blóðþrýstingurinn fellur. Þá verð ég að svæfa og barkaþræða. Þá ælir hún væntanlega þegar ég svæfi hana og getur dáið af því og svo framvegis og framvegis.

Verst að geta ekki notið þess að vera í Austin.
Einkunarorð borgarinnar eru: Keep Austin weird, sem hjlómar vel í mínum eyrum.
Þeir segjast líka vera alheimshöfuðborg lifandi tónlistar.