28.11.07

Ekki benda á mig!

Nú keppast menn sem eru nýhættir í Hvíta Húsinu um að sverja af sér alla illa gjörninga.

Karl Rove er hættur. Hann er almennt talinn veira heilinn á bak við það að koma Bush þangað og eins marga þingkosningasigra repúblikana.

En nú rauk hann í fjölmiðla og greinir frá því að Hvíta Húsið hafi verið á móti því að frumvarpið sem heimilaði innrásina í Írak væri lagt fram rétt fyrir þingkosningar 2002. Þeim fannst að þá yrði atkvæðagreiðslan um frumvarpið "of pólitísk"!

Hér er öllu snúið á hvolf. Stríðið er sem sagt ekki Hvíta Húsinu að kenna.
Ótrúlegt.


Ætli Bush eigi eftir að kenna Cheney um stríðið þegar hann hættir? Kannski var Bush alltaf á móti stríðinu í raun og veru......

Bill Clinton var líka í fjölmiðlum að sverja af sér stuðning við stríðið, hann segist bara sem fyrrverandi forseti ekki hafa getað verið á móti því opinberlega....
Það eltir Hillary eins og skugginn að hún skuli hafa greitt atkvæði með því að heimila stríðið, og þau eru mikið að reyna að losa hana úr þeirri klemmunni.

Það eru fáir orðnir eftir sem vilja bera ábyrgð á þessu stríði.

Læknir í landi tækifæranna

Það er sennilega hvergi betra að vera útlendingur heldur en hér í Bandaríkjunum.

Var að heyra í útvarpinu að í upstate New York er þriðjungur allra lækna útlendingar.
Ég er einn þeirra. Bandaríkin standa undir nafni sem land tækifæranna.

20.11.07

KIVA

Sælla er að gefa en þiggja, en sennilega er langbest að lána.

KIVA eru samtök sem hafa milligöngu um að veita fólki í þróunarríkjum örlán.
Maður skráir sig hjá þeim og hellir sér síðan út í lánastarfsemina.
Lánin eru vaxtalaus og endurgreiðsluhlutfallið er mjög hátt. Yfirleitt er um að ræða fólk sem er með einhvern lítinn rekstur eða þá að það stundar landbúnað.
Eitt stórt vandamál í þróunarlöndunum hefur einmitt verið að fólk hefur ekki aðgang að lánsfé, það fær bara okurlán (eins og á Íslandi?).

En þetta hefur sem sagt gefist mjög vel, og eftir að það birtist grein um þetta í NY Times eru samtökin orðin svo vinsæl að þeir verða að takmarka upphæðina sem maður fær að lána hverjum einstaklingi við 25 dollara.

Á kiva.org er hægt að sjá meira.

19.11.07

Slagorð

Gott slagorð úr kosningabaráttunni.

It takes a Clinton to clean up after a Bush....

18.11.07

Sjúklingar án landamæra

Það er góð grein í NY Times Magazine í dag um læknasamtök sem nefnast RAM (Remote Area Medical).

Þeir ferðast um heiminn og veita fólki ókeypis læknisþjónustu. Þeir hafa farið til Guyana, Indlands, Tansaníu og Haítí.

Í greininni var fjallað um eina slíka ferð - til Virginíu!

Já slík er þörfin heimafyrir að þeir þurfa í raun ekkert að ferðast út fyrir landssteinana. Þeir setja upp aðstöðu á túni þar sem kappreiðar og State Fair fer venjulega fram. Þar slá þeir upp tjöldum og vinna heila helgi.
Biðröðin eftir þjónustu byrjaði að myndast klukkan þrjú um nóttina, og það biðu 800 manns þegar þeir opnuðu klukkan hálf sex á laugardagsmorgni.

Flestir koma í augnskoðun og til tannlæknis. Þeir draga tennur úr fólki þarna í massavís.

Þeir reyna líka að bjóða upp á greiningu á sykursýki og leghálsskoðun hjá konum en eftirspurnin er lítil. Fólk kemur vegna verkja, eða vegna þess að það sér ekki nógu vel til að geta verið í vinnu.

Á myndunum má sjá hversu frumstæð aðstaðan er, svona eins og maður sér kannski á stöðum þar sem miklar náttúruhamfarir hafa átt sér stað og einhverju er hrugað saman í skyndi.

Svona eru andstæðurnar í heilbrigðiskerfinu hér.

Hér er tengill á greinina, veit ekki hvort að hann virkar!

14.11.07

Sicko

Jæja, við drifum loksins í að sjá Sicko, hún er komin út á dvd. Hún er mjög góð, margir góðir punktar. Það hljóta að vera svo gífurlegir fjármunir sem tapast vegna allra þessara milliliða sem trygginafélögin eru. Fyrir þá peninga mætti gera margt.
Ég þarf sem betur fer í minni vinnu ekki að spá í hver er með tryggingu og hver ekki, en þetta er víða mikill höfuðverkur. Það fer mikill tími í að reyna að finna úrræði fyrir fólk sem ekki er tryggt.

Maður hefur oft velt því fyrir sér hvernig standi á því að árangur íslensks heilbrygðiskerfis virðist vera mjög góður þó maður hafi oft hið þveröfuga á tilfinningunni. Ein ástæðan er sú að á Íslandi eru allir tryggðir og allir eru með, og hér í Bandaríkjunum verður árangur (t.d. 5 ára lifun eftir brjóstakrabbameinsgreiningu) aldrei jafn góður, sama hversu miklu er spanderað í meðferð margra (en ekki allra). Annar þáttur er líka heilbrygðari lífsstíll og öðruvísi genasamsetning (það er t.d. lítið um sykursýki á Íslandi.)

Það er ofsalega auðvelt á fá það á tilfinninguna að meira sé betra, þó það sé oft ekki mikið rannsakað. Heyrði í konu í útvarpinu í dag sem er að gefa út bók sem fjallar um aukaverkanirnar af öllum oflækningunum hér vestra. Það er svo margt í læknisfræði sem er gert, kannski af gömlum vana sem er illa rannsakað, og vandinn er sá að nánast öll inngrip geta verið skaðleg fyrir einhvern hluta sjúklinganna. Hér er miklu meira gert, miklu meira um CYA (cover your ass) lækningar sem felast í því að ofransaka hluti og koma þannig í veg fyrir að maður verði lögsóttur. Hin hliðin er náttúrulega sú að maður verður brjálaður þegar maður fréttir af einhverju á Íslandi sem ekki greindist eða ekki var gert fyrir eihvern sluksa- eða kæruleysishátt. Það er vandlifað í heimi læknavísindanna.

Konan sem viðtal var við á NPR tók sem dæmi high dose chemotherapy sem meðferð við brjóstakrabbameini. Hugmyndin var að gefa hærri skammt af krabbameinslyfjum og bjarga síðan sjúklingunum með mergskiptum. Hljómaði vel og lógískt og lyfjafyrirtækin græddu sinn skerf. Eftir mörg ár kom í ljós að útkoman var verri en við hefðbundna krabbameinslyfjameðferð.

Heima á Íslandi man ég eftir mikilli umræðu um aðgerð á röngum fæti á sjúklingi. Þetta er náttúrulega eitt það versta sem komið getur fyrir. Þegar ég fór heim í sumar var í gangi kerfi til að athuga einmitt með þetta atriði. Hér á Strong er miklu yfirgripsmeira kerfi í 7 liðum til að athuga með marga mikilvæga þætti. Ýtarlegra og betra ekki satt? Mér fannst það alla vegana meira traustvekjandi eins og það er gert hérna úti. En síðan sagði einn félagi minn mér að aðgerðum á röngum útlimum hefði í raun fjölgað eftir að svona kerfi var allsstaðar komið á. Það er kannski vegna þess að þá hugsar fólk ekki lengur, og kannski vegna þess að í stað þess að einblína á einn þátt (réttan aðgerðarstað) þá eru nú komnir inn í þetta allskonar aðrir hlutir á minnislistann. (Voru sýklalyf gefin, var gefin segavörn, var skurðlæknirinn búinn að hitta sjúklinginn í dag, fékk sjúklingurinn beta blokkara, var sjúklingurinn búinn að undirrita samþykki fyrir aðgerð...)

Fyrst eftir að ég kom hingað út fannst mér hjúkkurnar hér að sumu leyti betri en heima. Þær ganga jú hér um með hlustpípur eins og við læknarnir og eru oft liðtækari við ýmiskonar handverk eins og blóðprufur og fleira. Þær skrifa líka miklu meira hér. En þegar ég kom heim í sumar tók ég eftir því að íslenskir sjúklingar fá sennilega miklu betri hjúkrun, vegna þess að hjúkrunarfræðingarnir á Íslandi eru aðallega í því að hjúkra en ekki í öllu hinu.

Það er miklu líklegra að hér í Bandaríkjunum sé allt vel skráð, t.d. um allt það sem er gert til að koma í veg fyrir legusár, en ég held að það sé milu líklegra að sjúklingur fái legusár hér heldur en heima.

Minna er oft meira.
Hvað er best?
Veit það ekki.
Því er erfitt að svara.

12.11.07

Dollarinn hrapar


Heima á Íslandi skrifaði Dr. Gunni frábæran pistil um hnignun frábærleikans fyrir stuttu. Hitti beint í mark. En hér fyrir westan hafa menn áhyggjur af stöðu dollarans. Fyrst fréttist það að þýsk ofurfyrirsæta krefðist þess að fá borgað í evrum en ekki í dollurum. Svo kom sjálft áfallið þegar ofurrapparinn Jay-Z létt glitta í búnt af evruseðlum í tónlistarmyndbandi.
Halló!
Þetta væri eins og að Bæjarins Bestu auglýstu eina með öllu í evrum. Þá væri virkilega kominn tími til að hafa áhyggjur. Ætli íslensku seðlabankastjórarnir fari bara ekki bráðum að fá borgað í evrum? Eru þetta ekki bara dauðakippir í krónunni?

9.11.07

Bakarameistari



Finnur hefur gaman af því að skella í deig og baka. Við gerum þetta stundum saman feðgar. Oftast látum við brauðvélina bara um baksturinn, það er einfaldara og heppnast oftast ágætlega. Finnur bakarameistari stjórnar í öllu, og hefur eftirlit með bakstrinum en pabbi bakardrengur sér um að klúðra uppskriftinni, alveg eins og gerðist í Dýrunum í Hálsaskógi forðum. Brauðið verður t.d. ekki neitt sérstaklega gott ef saltið gleymist.....

3.11.07

Halloween




Halloween var á miðvikudaginn var. Þá gengu þeir um hverfið Spiderman og miðaldariddarinn og innheimtu nammiskatt. Heimtur voru góðar enda voru þeir ekki árennilegir saman tveir afkomendur Einars sterka.