25.12.06

Gleðileg jól



Gleðileg jól.
Hér hjá okkur voru jólin hátíðleg. Við fórum í messu á aðfangadag þar sem börnin léku jólaguðspjallið og komum síðan heim og borðuðum hangikjöt sem smakkaðist mjög vel. Síðan voru oppnaðir pakkar að íslenskum sið. Ég gluggaði síðan í bók Steingríms, VIÐ ÖLL, á jólanótt og hún er frábær. Formálinn er skemmtilegur og lýsir honum einstaklega vel. Nú bíður maður bara spenntur eftir mótleik frá Geir Haarde. Sú bók hlýtur þá að bera titilinn ÉG EINN.....
Á jóladagsmorgun kom í ljós að Santa hafði komið í heimsókn um nóttina og var búinn að stilla upp gjöfum til strákanna framan við jólatréð. Ólafur Stefán var mjög ánægður vegna þess að hann fékk nákvæmlega það sem hann hafði óskað sér. Við opnuðum síðan pakka frá vinum og ættingjum hér í Bandaríkjunum. Anna vinkona Ólafs kom síðan í heimsókn með gjafir handa þeim bræðrum, m.a. tickle me Elmo dúkku handa Finni sem er ein vinsælasta jólagjöfin í ár. Ég skóflaði síðan gömlum leikföngum í stóra poka til að rýma til fyrir öllu nýja fína dótinu. Meredith er að búa til stuffing og við ætlum að borða kalkúnabringu í dag.

Takk fyrir gjafirnar, kortin og kveðjurnar.

23.12.06

Jólasveinavandræði

Jæja, eins og gefur að skilja hafa jólasveinar verið hér á ferðinni hjá okkur upp á síðkastið. Ég er kominn á þá skoðun að það sé litlu upp á gömlu íslensku jólasveinana logið, þeir séu bæði þjófóttir og hrekkjóttir. Þar að auki hef ég ekki verið alveg nógu ánægður með það sem strákarnir hafa verið að fá í skóinn. Þeir fá stundum nammi, en oftast eitthvert plast drasl, og manni finnst oft að það sé lítil hugsun á bak við gjafirnar, svona eins og eitthvað hafi verið gripið af handahófi á síðustu stundu. Það er eins og jólasveinarnir séu á fullum launum við að halda uppi þenslunni í Kína. En það hafa þó verið ánægjulegar undantekningar á þessu. Strákarnir fengu t.d. blokkflautur í skóinn um daginn og Ólafur Stefán fékk einu sinni munnhörpu.
Svo gerist það einn morguninn að ég sit í makindum mínum framan við tölvuna þegar Ólafur Stefán kemur niður og sýnir mér hvað hann fékk í skóinn. Og svo segir hann "Ég veit að annaðhvort þú eða mamma settir nammið í skóinn minn, ég sá þetta nefnilega uppi á kommóðunni ykkar í gær". Ég átti nú síst von á svona svívirðilegum ásökunum þetta snemma dags þannig kaffið hálfpartinn hrökk ofan í mig og það varð fátt um andsvör. En sem betur fer var hann fljótur að hugsa sig um og sagði síðan. "Eða þá að jólasveinninn tók þetta hjá ykkur og setti þetta í skóinn minn". Við komumst síðan að því að þarna hafði Bjúgnakrækir verið á ferðinni og við fórum að uppnefna hann og kölluðum hann Nammikræki og Nammiþjóf.
Þannig er það nú.

19.12.06

Önnur mynd af Ólafi Stefáni


Hérna er ein mynd í viðbót í svarthvítu af honum Ólafi Stefáni. Hér er annars allt rólegt. Það fer bara að vanta jólasnjóinn. Við gerðum svolítið skemmtilegt í gær, þá hittist fólk úr hverfinu í heimahúsi og borðaði saman og síðan fóru allir út og við gengum um hverfið, bönkuðum upp á hjá fólki og sungum jólalög. Þetta er víst það sem kallast Christmas caroling á ensku.

12.12.06

Svarthvítar myndir




Sigrún vinkona okkar skellti sér á ljósmyndanámskeið fyrir stuttu og var svo almennileg að gefa mér eina svarthvíta filmu. Ég dustaði rykið af Nikon myndavélinni og kláraði filmuna á nokkrum dögum og hún framkallaði hana síðan. Hérna er síðan árangurinn, myndirnar voru stækkaðar í ljósmyndabúð hér í bænum. Það er náttúrulega sjálfsögð skylda okkar sem búum í mekka ljósmyndunar í heiminum að halda þessu formi ljósmyndunar lifandi.

3.12.06

Venus, Mars og testósterón



Karlar eru frá Mars, konur frá Venus og himingeiminn sjálfan ber á milli og því ekki nema von að kynjunum skuli ganga jafn illa og raun ber vitni að skilja hvort annað. Fæstir leggja í að fara frá öðrum hnettinum til hins, en gæti frásaga af slíku ferðalagi ekki aukið skilning okkar á kynjunum? Ég fékk nýlega disk með sumu af því besta af útvarpsþættinum This American Life, sem er skemmtilegur útvarpsþáttur frá Chicago Public Radio. Þar var að finna viðtal við Griffin Hansburry sem fæddist stúlka og var lesbía í háskóla en ákvað að láta breyta sér í karl. Lífinu skiptir hann í fyrir og eftir, ekki fyrir og eftir kynskiptaaðgerð, heldur fyrir og eftir testósterón. Hann var settur á stóra skammta af testósteróni og breytingarnar voru miklar og snarar.

Fyrsta breytingin og sú greinilegasta var hvað kynhvötina varðar:
Fyrir testósterón: Ég var kannski í neðanjarðarlestinni og sá konu sem mér leist vel á. Ég fór að spá í hvert hún skyldi vera að fara, hvað hún væri að lesa og hvort ég gæti hitt hana og ef svo hvað ég myndi þá segja við hana.
Eftri testósterón: Ég var í neðanjarðarlestinni og sá konu sem mér leist vel á. Hún var kannski ekki gífurlega aðlagandi en kannski var bara eitthvað eitt sem ég sá við hana. En það var nóg því nú var eins og það kæmist bara eitt að í hausnum á mér. Það var ekkert sagt og þetta var eins og að vera að horfa á grófa klámmynd og það var ekki hægt að slökkva. Núna vissi ég hvernig það var að vera unglingsstrákur.

Fyrir testósterón: Ég var cool lesbía og las upp ljóð sem ég orti um konur sem ég sá á förnum vegi.
Eftir testósterón: Ég var á gangi eftir götu og fór að horfa á rassinn á konu sem var á undan mér. Og ég glápti og glápti, en lítil rödd í hausnum á mér sagði, ekki horfa, ekki horfa. Ég gat varla hætt en hraðaði mér þó að lokum fram úr henni.
Og þegar ég var kominn fram úr byrjaði rödd að hlóma í heilanum á mér sem sagði mér ítrekað að snúa mér við og skoða á henni brjóstin. Og það litla sem eftir var af femíníska heilanum í mér sagði: Svínið þitt! Þú skalt ekki dirfast að snúa þér við bara til að skoða á henni brjóstin!!! Og ég barðist við sjálfan mig um stund, en snéri mér að lokum við og tók út á henni brjóstin.

Og þær voru fleiri stereotypurnar sem voru styrktar í þessari frásögn eins og t.d:
Fyrir testósterón: Ég átti auðvelt með að mynda vinasambönd við konur og átti auðvelt með að gráta.
Eftir testósterón: Ég á erfitt með eignast góða vini og get varla grátið. Ef ég finn að ég þarf að gráta loka ég mig af inni í herbergi en get yfirleitt ekki almennilega grátið, það kemur einhverskonar aumkunarverður ekki og yfirleitt koma ekki tár eins og áður.

Ja hérna hér, en þetta var ekki allt. Hann var spurður út í aðrar breytingar og sagði m.a. að þó hann gæti ekki sannað að eftirfarandi breyting væri vegna testósteróns þá hefði hann nú miklu meir áhuga á vísindum en áður. Þá kom smá þögn og síðan sagði Alex Blumberg (sá sem tók viðtalið) þetta: Þú gerir þér grein fyrir því að með þessum orðum þínum ertu að senda okkur hundrað ár aftur í tímann! En Hansburry bætti um betur og sagði- mér finnst líka að ég skilji eðlisfræði á einhvern hátt sem ég ekki gerði áður....

En hvernig kona var hann, og hvernig karl er hann í dag? Hann virtist nú ekki hafa verið sérstaklega undir það búinn en telur sig hafa breyst úr cool lesbíu (á mótorhjóli og í leðurgalla) í fremur nördaralegan karl (lágvaxinn og mjór, og hárið farið að þynnast). Hann þurfti að læra upp á nýtt að tala við konur, en þær töldu hann margar vera kvenhatara, einhverskonar Rush Limbaugh týpu. Hann þarf líka oft að ljúga um fortíð sína, það væri t.d. erfitt fyrir hann að útskýra fyrir fólki hversvegna hann útskrifaðist frá góðum kvennaháskóla, og hann neyðist til þess að segjast hafa farið í annan skóla rétt hjá sem er eingöngum fyrir karla en er ekki jafn góður.

En viðtalið endaði allt á jákvæðu nótunum og Hansburry sagði að fyrst að hann gat gengið í gegn um þessar breytingar allar saman þá sé fátt til sem sé ómögulegt. Alex Blumberg spurði síðan hvort að hann væri ekki oft beðinn um ráðleggingar í ástarmálum og Hansburry sagði að hann og vinur hans hefðu látið sér detta í hug að stofna veffyrirtæki í þeim tilgangi og þeir gætu þá auglýst: Áttu erfitt með að skilja hann/hana? Talaðu við okkur og fáðu ráðgjöf frá karli sem einu sinni var kona.....

Þetta líf, þetta líf.