23.12.06

Jólasveinavandræði

Jæja, eins og gefur að skilja hafa jólasveinar verið hér á ferðinni hjá okkur upp á síðkastið. Ég er kominn á þá skoðun að það sé litlu upp á gömlu íslensku jólasveinana logið, þeir séu bæði þjófóttir og hrekkjóttir. Þar að auki hef ég ekki verið alveg nógu ánægður með það sem strákarnir hafa verið að fá í skóinn. Þeir fá stundum nammi, en oftast eitthvert plast drasl, og manni finnst oft að það sé lítil hugsun á bak við gjafirnar, svona eins og eitthvað hafi verið gripið af handahófi á síðustu stundu. Það er eins og jólasveinarnir séu á fullum launum við að halda uppi þenslunni í Kína. En það hafa þó verið ánægjulegar undantekningar á þessu. Strákarnir fengu t.d. blokkflautur í skóinn um daginn og Ólafur Stefán fékk einu sinni munnhörpu.
Svo gerist það einn morguninn að ég sit í makindum mínum framan við tölvuna þegar Ólafur Stefán kemur niður og sýnir mér hvað hann fékk í skóinn. Og svo segir hann "Ég veit að annaðhvort þú eða mamma settir nammið í skóinn minn, ég sá þetta nefnilega uppi á kommóðunni ykkar í gær". Ég átti nú síst von á svona svívirðilegum ásökunum þetta snemma dags þannig kaffið hálfpartinn hrökk ofan í mig og það varð fátt um andsvör. En sem betur fer var hann fljótur að hugsa sig um og sagði síðan. "Eða þá að jólasveinninn tók þetta hjá ykkur og setti þetta í skóinn minn". Við komumst síðan að því að þarna hafði Bjúgnakrækir verið á ferðinni og við fórum að uppnefna hann og kölluðum hann Nammikræki og Nammiþjóf.
Þannig er það nú.

1 Ummæli:

Blogger Berglind Rós Magnúsdóttir sagði...

Góður! Það má alltaf bjarga sér fyrir horn ;)

6:11 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim