31.1.07

Desemberarnir


Plata ársins 2006 hjá mér er tvímælalaust The Crane Wife með hljómsveitinni The Decemberists. Ég uppgötvaði þennan disk reyndar ekki fyrr en í lok árs, en það er allt í lagi þar sem að hann kom út seint á árinu. Hljómsveitin er frá vesturströnd Bandaríkjanna (Portland) eins og svo margar aðrar góðar hljómsveitir. Nafnið á hlómsveitinni vísar í hóp herforingja sem gerðu misheppnaða valdaránstilraun í Rússlandi í desember 1825. Nafnið á disknum er hinsvegar fengið úr samnefndu japönsku ævintýri. Textarnir fjalla að einhverju leyti einmitt um þessa þjóðsögu, sem segir frá fátækum manni sem vinnur við saumaskap. Hann dáist af fegurð fugla (Cranes) sem hann sér á himninum. Dag einn kemur hann að særðum fugli og tekur hann heim með sér og hjúkrar og fuglinn flýgur síðan burt. Skömmu síðar bankar upp á hjá honum kona sem hann síðan giftist. Hún segist muni hjálpa honum við saumaskapinn ef hann lofi því að horfa aldrei á hana á meðan hún er að sauma. (Og hvað skyldi síðan gerast???)
Þau verða rík af fína saumaskapnum hennar, en hann stelst náttúrulega til að kíkja á hana einu sinni og þá kemur í ljós að þar er fuglinn kominn sem hann bjargaði, og reytir úr sér fjaðrirnar til að nota við saumaskapinn. En vegna þess að hann sá hana fer hún frá honum.

Þetta er skemmtileg hljómsveit og minna svolítið á The Pogues. Þeir hafa yfir sér þjóðlagablæ og skreyta síðan textana síðan með fornum orðum og setningum eins og t.d. thou.
Textarnir eru þó ekki allir um þetta japanska ævintýri, eitt lagið nefnist Shankill Butchers og þar segir frjá því hvernig móðir hræðir börnin sín með sögum af óðum morðingjum. En sagan af Shankill slátrurunum er því miður ekki þjóðsaga eða ævintýri. Um er að ræða hóp manna á Norður Írlandi sem notaði sláturhússverkfæri til að misþyrma og myrða kaþólikka á hroðalegan hátt á áttunda áratugnum. Það er talið að þeir hafi myrt 19 manns á þennan hátt. Þeir náðust loksins þegar eitt fórnarlambið lifði af, það var svo kalt að honum blæddi ekki út.

En ég hef sem sagt verið mjög ánægður með sjálfan mig og minn tónlistarsmekk og hef verið að benda fólki á þessa frábæru indie hljómsveit sem ÉG uppgötvaði. Og síðan fór ég á Starbucks þar sem þessum diski var stillt upp til sölu ásamt nokkrum öðrum af því auðmeltanlegasta og vinsælasta sem til er.....
Jæja.

29.1.07

Sá á kvölina sem á (skóla)völina

Nú fer að styttast í að við þurfum að ákveða í hvaða skóla Ólafur Stefán á að fara. Það er eins og með svo margt í þessum heimi, að lífið er einfaldara á Íslandi þar sem maður þarf ekki að taka jafn margar ákvarðanir, maður sendir barnið sitt bara í skólann. Hér koma nokkrir helstu möguleikarnir:

Almenningsskólarnir í Rochester:
Skólarnir þykja ekki góðir og það er ein aðalástæðan fyrir því að ungt menntafólk eins og við á að flytja úr borginni í úthverfin þegar elsta barnið kemst á skólaaldur. Við fórum nú samt með opnum huga á kynningu hjá þeim en ég gerði nú eiginlega upp minn hug um leið og ég gekk inn í bygginguna og rak augun í skilti þar sem tekið var fram að skotvopn væru ekki leyfileg í skólanum. Og nota bene, þessi skóli er bara K-5, ekki high school! Það eru samt til nokkrir góðir skólar á vegum borgarinnar, en við misstum svolítið af lestinni vegna þess að við héldum Ólafi Stefáni á leikskólanum í kindergarten, en hefðum getað sett hann í skóla þá.

Almenningsskólarnir í Pittsford eða Brighton:
Pittsford og Brighton eru úthverfi í kringum Rochester og þar þykja skólarnir vera með því besta sem gerist í öllum Bandaríkjunum. Okkur þykir þó að krakkarnir séu keyrðir töluvert hart áfram í Pittsford, og það er dálítið sérstakt að vera í bæjarfélagi þar sem allt snýst um þessa æðislegu skóla. Við kunnum bæði mjög vel við Brighton og það væri vissulega möguleiki að flytja þangað (og kaupa dýrara hús og borga hærra útsvar). Eins og staðan er í dag viljum við samt helst ekki flytja, kunnum vel við okkur í okkar hverfi, erum nálægt vinnunni og síðan vitum við ekki hvað við verðum lengi hér í Rochester.

Cobblestone: Þetta er lítill einkarekinn skóli niðri í bæ sem virðist sinna sínum krökkum mjög vel. Skólagjöld yrðu c.a. $8000 á ári. Höfðar að einhverju leyti til barna með sérþarfir. Við þekkjum stelpu sem er nemandi þarna og hún er mjög ánægð, var fyrsta árið í almenningsskóla í Rochester þar sem hún lenti í því hlutverki að vera nánast aðstoðarkennari í bekknum. Ég batt miklar vonir við þennan skóla, og ég sá þar margt verulega gott, eins og t.d. spurningarnar sem 5-6 ára krakkarnir vildu leita svara við þegar þau vorum að læra um geiminn. Er himnaríki partur af geimnum? Eru bein á Mars? Hversvegna er stjörnurnar í laginu eins og þær eru? En Cobblestone náði samt ekki alveg að heilla mig. Mér fannst stundum að þar væri dálítill losarabragur og ringulreið á hlutunum.

Genesee County Charter School: Þetta er einhverskonar tilraunaskóli á vegum hins opinbera. Engin skólagjöld, þykir vera mjög góður. Kennslan er óhefðbundin, þeir þurfa ekki að fylgja námsskránni og eru hvorki með próf né endalausan heimalærdóm. Námið snýst í kring um þema hérna í umhverfinu og þau vinna oft mjög flott og metnaðarfull verkefni. Gerðu t.d. verkefni um skipaskurðinn og möguleika út frá honum í miðbænum og sú skýrsla var kynnt fyrir borgarstjóranum. Mjög mikil samkeppni um pláss, við hefðum átt að sækja um fyrir Ólaf þar í fyrra og hefðum þá kannski átt smá möguleika. Höfðar mjög sterkt til þeirra sem búa í borginni en telja borgarskólana vera lélega, og eins til hinna sem þola ekki endalaus próf og heimalærdóm og vilja prófa nýjar leiðir í menntun.

Allendale Columbia og Harley: Þetta eru hvorutveggja dýrir, mjög góðir einkaskólar eða prep school, þ.e. þeir miða að því að undirbúa nemendurna undir háskólanám. Í Allendale Columbia er hefðbundin góð kennsla, ekki endalaust föndur alla daga. Denise nágrannakonu finnst þetta góður kostur fyrir Ólaf. Harley er líka hrikalega flottur og góður skóli, en svolítið óhefðbundnari og meira "granola" en Allendale Collumbia. Hreint út sagt frábær skóli þar sem nemendum er vel sinnt og það er passað upp á að ekki verði einelti og leiðindi til staðar. Þeir eru með sína eigin sundlaug og glænýtt glerstúdíó. Maður gæti haldið að þarna séu einungis börn ríkra foreldra en svo er ekki, mörg börnin fá styrki og svo eru þarna börn foreldra sem ekki eru rík en leggja ofuráherslu á góðan skóla. Skólagjöldin hjá þeim báðum? Ekki nema um $15000 á ári.....
Hann Ian vinur okkar er mikill talsmaður Harley. Hann ólst upp í Rochester og gekk í Harley (foreldrar hans höfðu efni á að senda hann þangað vegna þess að mamma hans vann í skólanum og fékk þessvegna góðan afslátt á skólagjöldunum). Þaðan fór hann til Harvard og endaði síðan á Íslandi! Hann hefur ekkert nema góða hluti um skólann að segja og mælir með því að við sendum Ólaf þangað.

Nazareth Hall: Nazareth Hall er kaþólskur skóli. Við höfðum útilokað nokkra svoleiðis skóla á ýmsum forsendum. Einn var verulega snobbaður og of kaþólskur (98% nemenda kaþólskir). Í öðrum hékk plakat uppi á vegg með sögu heimsins, en samkvæmt því varð heimurinn til um 4000 árum fyrir krist....
En síðan fór ég í kynningu í Nazareth Hall og varð mjög heillaður. Þetta er lítill skóli, í eldgamalli byggingu. Lyktin og kaþólsku líkneskin minna á húsið hennar "Grandma Cricco" og svo brakar í stigunum eins og í MA. Þeir eru með ágæta blöndu af krökkum, 50% kaþólskir og 50% hvítir. Ég fékk bara einhvernvegin mjög góða tilfinningu fyrir þessum skóla. Helsti gallinn er sá að hann er dálítið langt í burtu. Verð?? Um $4500 á ári.

Jæja, þarna hafið þið það, þetta eru nokkrir helstu möguleikarnir.

24.1.07

Kremostur

Ég er alltaf að leggja að Ólafi Stefáni að tala íslensku við mig og það gengur svona allaveganna, en hefur gengið vel nú í nokkra daga. Ef hann segir eitthvað við mig á ensku hef ég gjarnan sagt "Ég skil ekki" og þannig ýtt á hann að segja það sama á íslensku en það fer gífurlega í taugarnar á honum. Hann vill frekar að ég biðji sig að tala íslensku. Nú í kvöld var hann búinn með kvöldmatinn og vildi fá ristað brauð með rjómaosti. Hann bað um "bread with cream cheese" og ég bað hann að tala frekar íslensku. Og þá sagði hann - "má ég fá brauð með kremosti?"

23.1.07

Hanakambur, skíði og afmæli




Hér er mynd úr afmælisveislu Finns. Þar var glatt á hjalla.
Ólafur fór í klippingu um daginn, hann er búinn að tala lengi um að fá sér hanakamb og hann fékk alvega að ráða þessu sjálfur. Útkoman var mjög flott, en þetta er samt eitthvað öðruvísi en hann hafði ímyndað sér. Við sjáum bara hvað setur.
Hér kyngir niður snjónum. Við fórum á svigskíði um helgina í boði deildarinnar. Það var farið til Hunt Hollow sem er einkarekinn skíðaklúbbur, þ.e. maður þarf að vera meðlimur í klúbbnum til að geta farið á skíði. Það var bara mjög gaman. Ólafur skemmti sér vel en Finnur var fremur tortrygginn á þetta allt saman. Það besta var að skálinn er staðsettur alvega við lyfturnar þannig að maður er fljótur að skjótast út, skella sér í lyftuna og fara nokkrar ferðir, og koma síðan inn aftur.

16.1.07

Fréttamaðurinn sem þorir

Keith Olbermann er fréttamaður á MSNBC og er með þátt sem nefnist Countdown with Keith Olbermann. Hann er tvímælalaust beittasti gagnrýnandi Bush og stríðsins á öldum ljósvakans. Hann ver slatta af tíma sínum í að gagnrýna Bill O´Reilly en bestur er hann þegar hann kemur með special comment, yfirleitt sem andsvar við ræðu forsetans eða einhverju öðru sem fram hefur komið. Þessar athugasemdir hans eru ekki reglulegur hluti af þættinum, hann gerir þetta bara þegar sérstak tilefni er til. Þá setur hann sig í stellingar og notar stíl Edwar R Murrows, (sem Clooney gerði bíómynd um) og les alveg hreint hrikalega yfir stjórninni og talar oft beint til forsetans. Það má kannski segja að Olbermann sé andsvarið við yfirgangi Bushstjórnarinnar á svipaðan hátt og Edward R Murrow var andsvarið við McCarhy-ismanum. Það er athyglisvert að hann var íþróttafréttamaður áður en hann snéri sér að stjórnmálaumræðunni.
Ég sé ekki þáttinn hans í sjónvarpinu en leita oft að þessum athugasemdum hans, enda sér maður oft vitnað í hann. Ef þið viljið skoða þetta þá getið þið fundið þetta á YouTube eða MSNBC. Hann var með special comment fyrir nokkrum dögum sem nefndist Bush´s legacy: The president who cried wolf.
Aðrar góðar athugasemdir frá honum eru:
Bush owes us an apology
Advertising terrorism
A textbook definition of cowardice
A special comment about lying

Hann er fréttamaður sem þorir, er einhver slíkur til á Íslandi?

11.1.07

Hann er tveggja ára í dag!



Það renndi sér lítill maður niður stigann í morgun og tilkynnti að hann væri orðinn tveggja ára.
Þeir sofa saman í rúmi bræður og Ólafur var búinn að minna hann á þetta.
Annars gerðust hér þau undur og stórmerki að það fór að snjóa, og nú er búinn að vera snjór í 2 daga, sem er nýtt met þennan veturinn.

Og hér eru tvær myndir af afmælisbarninu. Hann var að fela sig inni í einhverskonar tjaldi og dró síðan frá við mikla kátínu. Það er til nokkurnvegin alveg eins mynd af Sigfúsi frá Svíþjóð þegar hann var á svipuðum aldri.