31.1.07

Desemberarnir


Plata ársins 2006 hjá mér er tvímælalaust The Crane Wife með hljómsveitinni The Decemberists. Ég uppgötvaði þennan disk reyndar ekki fyrr en í lok árs, en það er allt í lagi þar sem að hann kom út seint á árinu. Hljómsveitin er frá vesturströnd Bandaríkjanna (Portland) eins og svo margar aðrar góðar hljómsveitir. Nafnið á hlómsveitinni vísar í hóp herforingja sem gerðu misheppnaða valdaránstilraun í Rússlandi í desember 1825. Nafnið á disknum er hinsvegar fengið úr samnefndu japönsku ævintýri. Textarnir fjalla að einhverju leyti einmitt um þessa þjóðsögu, sem segir frá fátækum manni sem vinnur við saumaskap. Hann dáist af fegurð fugla (Cranes) sem hann sér á himninum. Dag einn kemur hann að særðum fugli og tekur hann heim með sér og hjúkrar og fuglinn flýgur síðan burt. Skömmu síðar bankar upp á hjá honum kona sem hann síðan giftist. Hún segist muni hjálpa honum við saumaskapinn ef hann lofi því að horfa aldrei á hana á meðan hún er að sauma. (Og hvað skyldi síðan gerast???)
Þau verða rík af fína saumaskapnum hennar, en hann stelst náttúrulega til að kíkja á hana einu sinni og þá kemur í ljós að þar er fuglinn kominn sem hann bjargaði, og reytir úr sér fjaðrirnar til að nota við saumaskapinn. En vegna þess að hann sá hana fer hún frá honum.

Þetta er skemmtileg hljómsveit og minna svolítið á The Pogues. Þeir hafa yfir sér þjóðlagablæ og skreyta síðan textana síðan með fornum orðum og setningum eins og t.d. thou.
Textarnir eru þó ekki allir um þetta japanska ævintýri, eitt lagið nefnist Shankill Butchers og þar segir frjá því hvernig móðir hræðir börnin sín með sögum af óðum morðingjum. En sagan af Shankill slátrurunum er því miður ekki þjóðsaga eða ævintýri. Um er að ræða hóp manna á Norður Írlandi sem notaði sláturhússverkfæri til að misþyrma og myrða kaþólikka á hroðalegan hátt á áttunda áratugnum. Það er talið að þeir hafi myrt 19 manns á þennan hátt. Þeir náðust loksins þegar eitt fórnarlambið lifði af, það var svo kalt að honum blæddi ekki út.

En ég hef sem sagt verið mjög ánægður með sjálfan mig og minn tónlistarsmekk og hef verið að benda fólki á þessa frábæru indie hljómsveit sem ÉG uppgötvaði. Og síðan fór ég á Starbucks þar sem þessum diski var stillt upp til sölu ásamt nokkrum öðrum af því auðmeltanlegasta og vinsælasta sem til er.....
Jæja.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim