28.9.06

Ég lærði það í leikskólanum

Það rignir yfir okkur pappírsflóði frá leikskólanum og skógunum virðist hvergi hlíft. Mest af því er óþarfi en þó leynast gullkorn inn á milli eins og t.d. eftirfarandi speki eftir Robert Fulghum.
Hann segist hafa lært flest það sem hann þarf að vita til að lifa góðu lífi á leikskólanum en ekki á öðrum æðri menntastofnunum.
Þetta eru nokkrar þeirra reglna sem hafa reynst honum vel:

  • Mundu að skiptast á með dótið
  • Taktu til eftir sjálfan þig
  • Ekki taka það sem þú ekki átt
  • Biðstu fyrirgefningar ef þú meiðir einhvern eða særir
  • Þvoðu hendur áður en þú borðar
  • Sturtaðu niður þegar þú ert búinn á klósettinu
  • Reyndu að hafa jafnvægi í lífinu. Lærðu, hugsaðu, teiknaðu og málaðu og syngdu og dansaðu dálítið á hverjum degi.
  • Gangtu frá hlutunum þegar þú ert búinn að nota þá
  • Passaðu þig á bílunum
  • Mundu að halda hópinn þegar út í hinn stóra heim er komið
  • Reyndu að leggja þig eftir hádegið


27.9.06

Meira um loftbelgi



Hver segir að loftbelgur þurfi endilega að vera eins og loftbelgur í laginu? Er það eitthvert lögmál?
Ég verð þó að segja að ég myndi fremur veðja á hefðbundið lag á loftbelg í keppni en hlöðu eða tertu. Aðstæður til flugs voru ekki sérlega góðar þarna en þessir tveir fóru ekki nema rétt í loftið og lentu hinumegin á túninu á meðan að margir hinna svifu yfir ásinn á svipstundu.

26.9.06

Uppskrift: Tveggjapottagrautur

Takið til og hafið við tiltækt-
  • Hrísgrjón (mörg)
  • Örlítið af salti
  • Slatta af mólk
  • Dálítið af vatni
  • Tvo potta af svipaðri stærð
  • Meiri mjólk
  • Rúsínur

Setjið vatnið og grjónin í annan pottinn og látið sjóða. Bætið saltinu út í þegar ykkur þykir henta og síðan mjólkinni. Látið sjóða vel og lengi en gætið þess að ekki brenni. Þegar grjónin brenna vegna þess að þið fóruð í tölvuna skal slökkt undir og grauturinn færður í hinn pottinn. Suðan látin koma upp í nýja pottinum og meiri mjólk bætt út í. FARIÐ ALLS EKKI FRÁ POTTINUM. Það væri klaufaskapur að láta brenna við í annað skiptið. Bætið rúsínunum við í lokin.

25.9.06

Það er gaman í sundi


Við fórum til West Virginia til að fagna brúðkaupi Nancy æskuvinkonu Meredith í lok ágúst. Það var haldin mikil veisla þar sem að m.a. var spilað á hljóðfæri sem ég hafði aldrei heyrt í áður. Þetta voru stáltrommur sem hljómuðu eins og orgel og er notkun þeirra algeng í tónlist karabíska hafsins. Það var hægt að skella sér í sund á eftir og drengirnir kunnu því vel. Maður fann það greinilega hvað maður var kominn sunnarlega þegar að bein útsending frá Nascar kappakstri hljómaði í gegn um hátalarana.
En nú að öðrum ljúfum tónum. Brett Dennen er tónlistarmaður sem ég hafð aldrei heyrt um fyrr en í gær. Ég varð svo hrifinn af þessu lagi að ég skellti mér beint á itunes og keypti smellinn. Lagið heitir Ain´t No Reason. Mér finnst þetta hljóma svolítið eins og Damien Rice, hvað finnst ykkur?
profile.myspace.com/index.cfm?fuseaction=user.viewprofile&friendID=16338693

Lifið heil en ekki í pörtum.

24.9.06

Enn ein myndin....


Jæja best að fara að hætta þessu. Þessi mynd er einnig frá Kauai. Þessi mynd var búin til úr 4 myndum. Þetta er næstfallegasti dalur í heimi, í öðru sæti á eftir Heljardal.

Önnur mynd


Meira af því sama. Ekki amarlegt að sóla sig þarna. Ólafur Stefán fékk að synda þarna með skjaldbökum. Við keyptum handa honum bretti sem var með glerauga í miðjunni þannig að hann gat setið klofvega á því og horft á skjaldbökurnar og fiskana í gegn um brettið. Þessi mynd er sett saman úr 3 myndum. Myndin er frá Norður ströndinni á Kauai sem er einhver þekktasta og besta brimbrettaströnd í heiminum.

Víðsjármyndir


Ég var að leika mér að því að skella saman myndum frá Hawaii frá því 2003. Það er nefninlega forrit með myndavélinni sem gerir þetta fyrir mann. Ég tók þannig 2 - 3 myndir í einu en hafði aldrei skoðað árangurinn fyrr en nú. Hvað finnst ykkur? Sjáið þið nokkuð "saumana" á myndunum. Þessi mynd hér að ofan er saumuð saman úr 2 myndum.

22.9.06

NEI!

Það hafðist. Mér tókst að kenna Finni að segja nei. Hann er farinn að tala mjög mikið og komst að því að best væri að læra með því að herma eftir sem talað er til hans eða sagt er í kring um hann. Hann talar því gjarnan um sjálfan sig í þriðju persónu. Dæmi um samtöl okkar á milli:
Vill Finnur fá að Borða?
Finnur fá að borða
Viltu fara á róló?
Fara róló!

Hann sem sagt endurtekur ef hann er sammála en sagði gjarnan uhm! og gretti sig ef hann vildi segja nei. Mér þótti þetta ómögulegt og kenndi honum að segja nei og hann er farinn að nota það óspart.
Vill finnur fara í skólann?
Nei. Ekki fara í skólann.
Villtu fara út í bíl og fara í skólann?
Nei!
Finnur fara í bíl og fara að versla. (Það er greinilega mjög gaman að gera það..)
Finnur taka lýsi.
Uhm! (grettir sig) Nei!
En ég fæ hann samt til að taka lýsi ef það fylgir eitthvað gott á eftir eins og epladjús.
En það er semsagt mikilvægt að kunna að segja nei.
Kveðjur.

21.9.06

Loftbelgir í tugatali


Við skelltum okkur á loftbelgjahátíð fylkisins í byrjun september. Þetta var mjög gaman og það fóru um 40 loftbelgir í loftið á klukkustund. Finnur var yfir sig hrifinn og vill fara þangað aftur í tíma og ótíma. Ólafur Stefán var hrifnari af leiktækjunum og fékk meðal annars að prófa klifurvegg.

Bræður tveir og báðir með sólgleraugu


Ætli ég prófi ekki að setja inn mynd af þeim bræðrum Finni og Ólafi Stefáni. Það náðist af þeim þessi fína mynd þegar Finnur fékkst loksins til að vera með sólgleraugun sín í meira en 30 sekúndur.

20.9.06

Í upphafi...

Gaman að prófa að setja eitthvað hér inn. Vonin er náttúrulega sú að maður verði aðeins duglegri við að setja inn myndir og annað en hingað til. Ég lofa samt engu.