Ég heilsaði Barack!
Við vorum stödd í New Hampshire um helgina og hringdum í stjúpmömmu vinkonu okkar og ætluðum að kíkja þar í heimsókn þegar hún sagði okkur að Barack Obama yrði með framboðsfund á svæðinu daginn eftir. Við ákváðum að skella okkur bara.
Fundurinn var haldinn á campus Dartmouth háskólans í litlu porti og það mættu um 5000 manns. Obama er nánast eins og rokkstjarna, það hafa verið að mæta 10 - 20 þúsund manns á fundi hjá honum í stærri háskólabæjum.
Þetta fór eiginlega fram eins og rokktónleikar, nema það var ekkert ljósashow. Það var a capella sönghópur sem hitaði upp fyrir kappann og hann lét dálítið bíða eftir sér og fólk var orðið óþreigjufullt og fagnaði ákaft þegar hann steig á sviðið.
Hann fór vítt og breitt um hið pólitíska svið og útskýrði meðal annars hvers vegna hann hefði skellt sér út í pólitík. Saga hans er mögnuð, og maður fékk það á tilfinninguna að hann sé alveg hreint ekta og standi í þessu streði öllu út frá réttum forsendum. Hann er áhrifamikill ræðumaður og maður klökknaði á stundum við að heyra hann tala. Hann fjallaði um óréttlætið, stríðið, mannréttindabaráttu blökkumanna, götin í heilbrigðiskerfinu og ótal margt fleira.
Mér finnst nánast að ég hafi orðið vitni að einhverju stóru sem sé um það bil að fara að gerast.
Frábær náungi og ég vona að honum gangi sem best og verði annar af frambjóðendum demókrata í forsetakosningunum.
Þegar fundinum lauk fór ég að sjálfsögðu upp að sviðinu og freistaði þess að heilsa kappanum, eins og ég gerði við Bill Clinton síðasta haust þegar hann kom til Rochester. Ég labbaði nánast yfir fólk þangað til ég komst í færi við hann og rétti svo út spaðann. Hann heilsaði mér auðvitað og þá varð Meredith strax að orði "That was a waste of a handshake."
Uss, hann veit ekkert að ég má ekki kjósa......