30.5.07

Ég heilsaði Barack!



Við vorum stödd í New Hampshire um helgina og hringdum í stjúpmömmu vinkonu okkar og ætluðum að kíkja þar í heimsókn þegar hún sagði okkur að Barack Obama yrði með framboðsfund á svæðinu daginn eftir. Við ákváðum að skella okkur bara.

Fundurinn var haldinn á campus Dartmouth háskólans í litlu porti og það mættu um 5000 manns. Obama er nánast eins og rokkstjarna, það hafa verið að mæta 10 - 20 þúsund manns á fundi hjá honum í stærri háskólabæjum.

Þetta fór eiginlega fram eins og rokktónleikar, nema það var ekkert ljósashow. Það var a capella sönghópur sem hitaði upp fyrir kappann og hann lét dálítið bíða eftir sér og fólk var orðið óþreigjufullt og fagnaði ákaft þegar hann steig á sviðið.

Hann fór vítt og breitt um hið pólitíska svið og útskýrði meðal annars hvers vegna hann hefði skellt sér út í pólitík. Saga hans er mögnuð, og maður fékk það á tilfinninguna að hann sé alveg hreint ekta og standi í þessu streði öllu út frá réttum forsendum. Hann er áhrifamikill ræðumaður og maður klökknaði á stundum við að heyra hann tala. Hann fjallaði um óréttlætið, stríðið, mannréttindabaráttu blökkumanna, götin í heilbrigðiskerfinu og ótal margt fleira.

Mér finnst nánast að ég hafi orðið vitni að einhverju stóru sem sé um það bil að fara að gerast.
Frábær náungi og ég vona að honum gangi sem best og verði annar af frambjóðendum demókrata í forsetakosningunum.

Þegar fundinum lauk fór ég að sjálfsögðu upp að sviðinu og freistaði þess að heilsa kappanum, eins og ég gerði við Bill Clinton síðasta haust þegar hann kom til Rochester. Ég labbaði nánast yfir fólk þangað til ég komst í færi við hann og rétti svo út spaðann. Hann heilsaði mér auðvitað og þá varð Meredith strax að orði "That was a waste of a handshake."

Uss, hann veit ekkert að ég má ekki kjósa......

27.5.07

Útskriftarveisla Matt í New Hampshire



Við skelltum okkur í mikið ferðalag og keyrðum alla leið til tengdapabba og Kate í NH. Þetta er hér um bil 7 tíma akstur og við ákváðum að gista eina nótt á hóteli á leiðinni. Útskriftarveislan var fín, og það var nóg af bæði mat og drykk og séð til þess að enginn færi svangur heim. Það er alltaf jafn fallegt hérna í New Hampshire á sumrin allt svo ótrúlega grænt og fallegt.

Við höldum heimleiðis á morgun en í dag er Memorial day, sem er frídagur. Við Meredith skelltum okkur og heilsuðum upp á Barack Obama, en hann var einmitt staddur í Hanover í dag. Best að blogga um það síðar.

23.5.07

6 ára afmæli Ólafs Stefáns




Stóri strákurinn okkar varð 6 ára þann 19. maí. Við heldum upp á afmælið hér heima og það var mikið fjör. Hann fékk góða gesti í afmælið til sín; Sophie, Edwin, Einar Árna og Egil Bjarna, Maggie nágranna, og svo Eric og Zachary sem hann hefur þekkt nánast frá því að hann var tveggja ára. Hann vildi hafa íþróttaþema, þannig að það var bökuð heilmikil kaka og skreytt eins og fótboltavöllur (þ.e. bökuð og skreytt í Wegmans).

Bandaríkjamenn eru sigurvegarar, Íslendingar.....

Bandaríska þjóðarsálin er sigurvegari í eðli sínu og þolir illa að tapa. Sú íslenska er vön því að tapa nánast alltaf, en er þess vegna mun þrautseigari. Fátt segir manni jafn mikið um þjóðarsál lands en að horfa á ólympíuleika í viðkomandi landi. Ég hef upplifað þetta heima, hér, og líka í Frakklandi. Það er skemmtilegast að horfa á ólympíuleika á Íslandi, þar fær maður að sjá mestu breiddina, og þar sem að við erum svo lélegir í íþróttum þá fer ekki mikill tími í að eltast við íslensku keppendurna.

Franska útgáfan af ólympíuleikum var mjög ólík þeirri íslensku. Þetta voru í raun hjólreiða-ólympíuleikar, og keppt í fáum öðrum markverðum greinum. Það var svo sem allt í lagi vegna þess að við Meredith (og Ólafur í bumbunni) vorum einmitt á hjólaferðalagi í Frakklandi þegar ólympíuleikarnir voru í Sydney.

Banaríska útgáfan af ólympíuleikunum einkennist af leit að bandarískum keppendum sem eru líklegir til að ná verðlaunasæti. Þeir þurfa ekki líkt og Frakkar og Íslendingar að halda tryggð við ákveðnar keppnisgreinar. Bandaríkjamenn keppa nánast í öllu þannig að það er alltaf einhver að vinna einhversstaðar. Ef hinsvegar gengur illa, þá er þeirri grein hent út í buskann, og ekki þess virði að fylgjast með, þó um klassíksar bandarískar íþróttir sé að ræða eins og t.d. körfubolta.

Skemmtilegast finnst Bandaríkjamönnum að fylgjast með eigin íþróttamönnum í keppni um verðlaunasæti þar sem ofan á bætist einhver mannleg tragedía, eins og t.d. ef fjölskyldumeðlimur einhvers keppandans liggur fyrir dauðanum á spítala.

Aðdragandi íraksstríðsins í fjölmiðlunum hér minnti mig á aðdraganda ólympíuleika. Það var verulega mikil jákvæð keppnisspenna í loftinu, og svo píulítil alvara. En Bandaríkjamenn ætluðu sér að mæta á svæðið, sópa að sér gullum og halda síðan heim.

En þjóðarsálin þolir illa að tapa og þess vegna er íraksstríðið farið að fara verulega í taugarnar á Bandaríkjamönnum. Þetta er eins og með Bandaríska körfuboltaliðið á ólympíuleikum, þeir eru með besta liðið en eru samt að tapa! Þeir hafa ekki þessa sömu seiglu og við í að halda áfram með sínu liði þó að á móti blási. Þeir vilja að íraksstríðið hverfi úr sjónvarpinu og gleymist sem fyrst. En það er með stríð eins og ólympíuleika, það verður keppt aftur fyrr en varir og það gengur bara betur næst!

20.5.07

Latabæjarstjórnin

Nú velta menn fyrir sér nafni á nýju ríkisstjórninni.
Hún hefur verið nefnd Baugsstjórn og Þingvallastjórn og sitthvað fleira.

En mér datt í hug að hún gæti bara heitið Latabæjarstjórn.
Helstur persónur og leikendur eru Solla stirða, Geir Harði og Þorgerður þrumulína. Svo er það Grímur glæpur sem fulltrúi stjórnarandstöðunnar. Hann er alltaf að leggja á ráðin gegn hinum. Nú vantar bara hlutverk fyrir Björn Bjarnason og Össur.

En yfir öllu, með sitt alsjánandi auga, flýgur svo...... Baugsálfurinn.
Ræður í reynd öllu. Sér til þess að útkoman sé alltaf hagstæð í lokin.
Passar líka upp á að allir íbúarnir borði ferskt og gott grænmeti úr Bónus.

14.5.07

Space Needle



Hér er mynd af nálinni í Seattle. Eins og sést á myndunum fengum við rjómablíðu þarna.

13.5.07

Ómarslón

Jæja þessi kosninganótt var hrikalega spennandi. Það eru sár vonbrygði að stjórnin skuli hafa haldið. Þeir halda væntanlega ótrauðir áfram. Bara spurning hvernig réttast sé fyrir þá að verðlauna Ómar fyrir að hafa gulltryggt þessa niðurstöðu. Ríkisstjórnin á honum mikið að þakka. Kannski þeir nefni næsta miðlunarlón eftir honum. Nei ég segi nú bara svona, hann hlýtur að líta í eigin barm, það þýðir ekki að að kenna kosningareglunum um, þær eru bara eins og þær eru.

Michael Moore fór til Kúbu

Nú er viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna að eltast við Michael Moore vegna þess að hann fór til Kúbu við gerð Sicko. Braut þannig gegn viðskiptabanninu sem verið hefur í gildi frá 1962. Hann er flúinn með myndina til Kanada þannig að hún verði ekki gerð upptæk. Hann mun hafa farið með hóp verkamanna frá Ground Zero, sem voru haldnir einhverjum kvillum, til lækninga á Kúbu þar sem að þeir voru sennilega ekki með tryggingar hér í Bandaríkjunum.

Það er alltaf spennandi að sjá hvað hann lætur sér detta í hug.

10.5.07

Sætir strákar



Hér eru fleiri myndir úr ferðinni góðu. Annars vegar er mynd af þeim Owen og Finni og síðan af Simon og Ólafi Stefáni.

9.5.07

Myndir frá Vancouver



Hér eru nokkrar myndir sem ég tók í Vancouver. Vissulega falleg borg.

Háhýsin eru kannski ekki öll glæsileg, en það er svolítið flott hvernig þeir hafa raðhús í sama stíl sambyggð turnunum.

6.5.07

Tónleikar: The Decemberists



Ég var svo heppinn að eitt af mínum uppáhaldsböndum um þessar mundir, The Decemberists, var að spila í Seatlle í gærkvöldi. Þeim hefur nýlega skotið upp á stjörnuhimininn og platan þeirra, The Crane Wife, var valin plata ársins í þættinum All Songs Considered á NPR. Ég ákvað að skella mér og fékk Eric með í för. Tónleikarnir voru haldnir í The Paramount Theatre sem er gamalt, virðulegt og massívt leikhús.

Það er alltaf gaman að sjá band sem maður hefur mætur á á tónleikum og það er alltaf ákveðin óvissa til staðar um útkomuna. Ég varð ekki fyrir vonbrygðum, því fór svo fjærri. Þau voru frábær. Hljóðið var eitt það besta sem ég hef heyrt, og þau sýndu hvað þau eru pottþéttir tónlistarmenn, standa fyllilega fyrir sínu á sviðinu, þeirra tónlist verður ekki til í tölvum í hljóðveri. Þetta var eins og hálfgerð leiksýning og söngvarinn stjórnaði í áheyrendaskaranum af festu og fékk fólk til að leika allskonar kúnstir.

Frábær upplifun og gaman að þetta skyldi hittast svona vel á. Eric skemmti sér bara vel, fannst þau vera einhverskonar blanda af írska bandinu The Water Boys og REM snemma á ferlinum.

3.5.07

Seattle

Jæja, þá erum við komin til Seattle. Við keyrðum niðureftir og komum m.a. við í Bellington þar sem Sigrún Qvindesland vinkona okkar átti einu sinni heima. Ókum síðan þaðan meðfram ströndinni niður til Edmonds sem er úthverfi Seattle. Þar eiga Melissa og Eric einmitt heima.

Það er óneitanlega öðrvísi andrúmsloft hér á vestruströndinni. Maður fann það um leið og stigið var út úr bílnum fyrsta kvöldið. Loftið er kalt og frískandi, eins og á Íslandi (enda er maður við sjávarsíðuna), litirnir eru allir skarpari og mér fannst meira að segja húsið þeirra Eric og Melissu minna mig á íslensk hús!

Síðan er kaffi allsstaðar, þar sem eru pylsuvagnar heima eru espressovagnar hér.
Meredith fór á ráðstefnuna í dag og við feðgar brugðum okkur niður í miðbæ og fórum upp í nálina (Space Needle). Það er 605 feta hár turn sem var byggður fyrir heimssýninguna 1962. Síðan fórum við á tónlistarsafnið sem var mjög flott. Þar fékk ég það besta kaffi sem ég hef fengið síðan ég bjó það til sjálfur á Skólavörðustígnum forðum daga.

1.5.07

Fimmstjörnu fangelsi


Rakst á áhugaverða grein í blaðinu hér í Vancouver. Hún fjallaði um möguleikann á að kaupa sér þægilegri fangelsisdvöl í Kaliforniu. Það er sem sagt hægt að borga $ 80 - 125 á sólarhring fyrir það að vera í sérstakri þægilegri álmu (samt sem áður á fangelsislóðinni) þar sem menn mega hafa hjá sér ipod og tölvu og þurfa ekki að umgangast venjulega "hardcore" fanga. Þetta fólk fær jafnvel að stunda sína vinnu, en það er þó gerð á því nákvæm leit í hvert skipti sem það kemur aftur inn í fangelsið. Þetta hefur verið til staðar í langan tíma og er mjög vinsælt, þeir þurfa ekki mikið að auglýsa eftir viðskiptum. En þó auglýstu þeir í upphafi í kringum 1990 með eftirfarandi slagorði -
Bad things happen to good people...
Þjónustan er síðan kynnt á ýmsum stöðum eins og t.d. Rotary klúbbum.
Með greininni fylgdi mynd af ungri konu sem keypti sér mánaðardvöl í luxusfangelsi til að sitja af sér dóm fyrir ölvunarakstur. Og svo var sagt frá einum sem vildi gera 4 ára samning við fangelsið. Þetta luxusfangelsi er þó ólíkt hótelum á einn hátt. Þú getur hvorki borgað með greiðslukorti eða ávísun, þeir taka einungis við fólki sem borgar fyrirfram með beinhörðum peningum.
Sannast þar hið fornkveðna - þú færð betri þjónustu ef þú borgar meira!
Einhverjir hafa bent á að í þessu felist hróplegt óréttlæti. Tveir menn keyra fullir (og lenda kannski í árekstri hvor við annan) og missa prófið og þurfa að sitja inni í mánuð. Annar getur keypt sér þessa lúxusdvöl en afplánun hins getur þess vegna verið barátta upp á líf og dauða.
En slík umræða ristir aldrei djúpt hér og það er bent á að þetta afli tekna sem síðan leiði til betri þjónustu fyrir alla. (Hljómar kunnuglega - ekki satt?)