6.5.07

Tónleikar: The Decemberists



Ég var svo heppinn að eitt af mínum uppáhaldsböndum um þessar mundir, The Decemberists, var að spila í Seatlle í gærkvöldi. Þeim hefur nýlega skotið upp á stjörnuhimininn og platan þeirra, The Crane Wife, var valin plata ársins í þættinum All Songs Considered á NPR. Ég ákvað að skella mér og fékk Eric með í för. Tónleikarnir voru haldnir í The Paramount Theatre sem er gamalt, virðulegt og massívt leikhús.

Það er alltaf gaman að sjá band sem maður hefur mætur á á tónleikum og það er alltaf ákveðin óvissa til staðar um útkomuna. Ég varð ekki fyrir vonbrygðum, því fór svo fjærri. Þau voru frábær. Hljóðið var eitt það besta sem ég hef heyrt, og þau sýndu hvað þau eru pottþéttir tónlistarmenn, standa fyllilega fyrir sínu á sviðinu, þeirra tónlist verður ekki til í tölvum í hljóðveri. Þetta var eins og hálfgerð leiksýning og söngvarinn stjórnaði í áheyrendaskaranum af festu og fékk fólk til að leika allskonar kúnstir.

Frábær upplifun og gaman að þetta skyldi hittast svona vel á. Eric skemmti sér bara vel, fannst þau vera einhverskonar blanda af írska bandinu The Water Boys og REM snemma á ferlinum.