Jæja, við drifum loksins í að sjá Sicko, hún er komin út á dvd. Hún er mjög góð, margir góðir punktar. Það hljóta að vera svo gífurlegir fjármunir sem tapast vegna allra þessara milliliða sem trygginafélögin eru. Fyrir þá peninga mætti gera margt.
Ég þarf sem betur fer í minni vinnu ekki að spá í hver er með tryggingu og hver ekki, en þetta er víða mikill höfuðverkur. Það fer mikill tími í að reyna að finna úrræði fyrir fólk sem ekki er tryggt.
Maður hefur oft velt því fyrir sér hvernig standi á því að árangur íslensks heilbrygðiskerfis virðist vera mjög góður þó maður hafi oft hið þveröfuga á tilfinningunni. Ein ástæðan er sú að á Íslandi eru allir tryggðir og allir eru með, og hér í Bandaríkjunum verður árangur (t.d. 5 ára lifun eftir brjóstakrabbameinsgreiningu) aldrei jafn góður, sama hversu miklu er spanderað í meðferð margra (en ekki allra). Annar þáttur er líka heilbrygðari lífsstíll og öðruvísi genasamsetning (það er t.d. lítið um sykursýki á Íslandi.)
Það er ofsalega auðvelt á fá það á tilfinninguna að meira sé betra, þó það sé oft ekki mikið rannsakað. Heyrði í konu í útvarpinu í dag sem er að gefa út bók sem fjallar um aukaverkanirnar af öllum oflækningunum hér vestra. Það er svo margt í læknisfræði sem er gert, kannski af gömlum vana sem er illa rannsakað, og vandinn er sá að nánast öll inngrip geta verið skaðleg fyrir einhvern hluta sjúklinganna. Hér er miklu meira gert, miklu meira um CYA (cover your ass) lækningar sem felast í því að ofransaka hluti og koma þannig í veg fyrir að maður verði lögsóttur. Hin hliðin er náttúrulega sú að maður verður brjálaður þegar maður fréttir af einhverju á Íslandi sem ekki greindist eða ekki var gert fyrir eihvern sluksa- eða kæruleysishátt. Það er vandlifað í heimi læknavísindanna.
Konan sem viðtal var við á NPR tók sem dæmi high dose chemotherapy sem meðferð við brjóstakrabbameini. Hugmyndin var að gefa hærri skammt af krabbameinslyfjum og bjarga síðan sjúklingunum með mergskiptum. Hljómaði vel og lógískt og lyfjafyrirtækin græddu sinn skerf. Eftir mörg ár kom í ljós að útkoman var verri en við hefðbundna krabbameinslyfjameðferð.
Heima á Íslandi man ég eftir mikilli umræðu um aðgerð á röngum fæti á sjúklingi. Þetta er náttúrulega eitt það versta sem komið getur fyrir. Þegar ég fór heim í sumar var í gangi kerfi til að athuga einmitt með þetta atriði. Hér á Strong er miklu yfirgripsmeira kerfi í 7 liðum til að athuga með marga mikilvæga þætti. Ýtarlegra og betra ekki satt? Mér fannst það alla vegana meira traustvekjandi eins og það er gert hérna úti. En síðan sagði einn félagi minn mér að aðgerðum á röngum útlimum hefði í raun fjölgað eftir að svona kerfi var allsstaðar komið á. Það er kannski vegna þess að þá hugsar fólk ekki lengur, og kannski vegna þess að í stað þess að einblína á einn þátt (réttan aðgerðarstað) þá eru nú komnir inn í þetta allskonar aðrir hlutir á minnislistann. (Voru sýklalyf gefin, var gefin segavörn, var skurðlæknirinn búinn að hitta sjúklinginn í dag, fékk sjúklingurinn beta blokkara, var sjúklingurinn búinn að undirrita samþykki fyrir aðgerð...)
Fyrst eftir að ég kom hingað út fannst mér hjúkkurnar hér að sumu leyti betri en heima. Þær ganga jú hér um með hlustpípur eins og við læknarnir og eru oft liðtækari við ýmiskonar handverk eins og blóðprufur og fleira. Þær skrifa líka miklu meira hér. En þegar ég kom heim í sumar tók ég eftir því að íslenskir sjúklingar fá sennilega miklu betri hjúkrun, vegna þess að hjúkrunarfræðingarnir á Íslandi eru aðallega í því að hjúkra en ekki í öllu hinu.
Það er miklu líklegra að hér í Bandaríkjunum sé allt vel skráð, t.d. um allt það sem er gert til að koma í veg fyrir legusár, en ég held að það sé milu líklegra að sjúklingur fái legusár hér heldur en heima.
Minna er oft meira.
Hvað er best?
Veit það ekki.
Því er erfitt að svara.