30.9.07

Lestrarnám í landi tækifæranna


Ólafur Stefán er farinn að lesa töluvert mikið. Við fórum á foreldrafund í skólanum hans um daginn og það eru mörg prógröm í gangi til að kenna þeim að lesa, svo mörg, og kerfið er svo flókið að ég bara hreinlega skil það varla. En kennarinn hvetur þau áfram, skiptir þeim stundum upp í hópa, hlustar stundum á þau lesa í einrúmi og sitthvað fleira. Hún reynir að finna handa þeim bækur þar sem þau geta lesið 95% orðanna án vandræða, það ku víst vera hæfilega erfitt, annars er bókin of létt eða of snúin.

Og síðan er þeim mútað til að lesa. Ef hann nær að lesa fimm bækur á mánuði fær hann ókeypis pizzu á Pizza Hut. Og ef hann nær að skila inn stuttum greinargerðum um 10 bækur sem hann hefur lesið fyrir jól fær hann að borða hádegismat með kennaranum! Vá, það hlýtur að vera ekkert smá spennandi því að hann hefur verið gífurlega duglegur að lesa undanfarna daga.

En að öðru. Nú er hún amma mín veik, hún fékk blóðtappa í höfuðið og liggur á FSA blessunin. Við hugsum hlýtt til hennar. Það er gott að vita af henni á FSA.

23.9.07

Kvöldsólin á Gunnarsstöðum



Það er geysilega kvöldfagurt á Gunnarsstöðum. Það rifjaðist upp fyrir mér nú í ágúst við jarðarför afa. Manni finnst alltaf eins og þar sé svo stillt á kvöldin. Heyrist ekkert nema korrið í miðstöðinni og söngurinn í fuglunum.

Efri myndin er af húsi Laufeyjar og Ragga og hin myndin er af sólinni að setjast yfir gömlu hlöðunni og fjárhúsunum.

20.9.07

ekónomiks eða íkónomiks?

Ólafur Stefán lærði margt í kindergarten. Hann lærði að lesa og skrifa dálítið og svo lærði hann líka hagfræði. Ég er ekki alveg viss um hvað það risti djúpt en hann segist alla vegana vita hvernig á að bera orðið economics fram. Mr. Justin (kennarinn hans) sagði jú að það ætti að bera það fram "ekónomiks" en ekki "íkónomiks". Hann er svo viss á þessu að hann hefur tvívegis leiðrétt karl í útvarpinu sem bar þetta vitlaust fram.
Þar var á ferðinni einhver Alan Greenspan sem sagði íkónomiks en ekki ekónomiks.....

18.9.07

Hann er að fara með út mér!

Reynið þið nú að snara þessari setningu yfir á ensku. Finnur sagði þetta í dag á leiðinni heim af róló í blíðskaparveðri. Hann fór heim með mömmu sinni á bílnum en Ólafur hjólaði heim með nágranna okkar.


Hann sagði þetta fyrst á ensku. "He is going without me" varð sem sagt að "Hann er að fara með út mér".

14.9.07

Ljúfur sumardagur á Mýrum


Hér er mynd af Finni uppi á Mýrum.

11.9.07

NINJA lán

Fjármálakerfi heimsins titra þessa dagana. Það er m.a. vegna þess að þeir hafa verið duglegir hér vestra að veita fólki húsnæðislán á lágum breytilegum vöxtum (sem nú eru einmitt að hækka).

Ninja lán er þegar lántakandinn er skilgreindur sem no income, no job or assets.

9.9.07

Komin heim til Rochester.

Þá erum við komin heim til Rochester. Við erum farin að vinna og skólinn er byrjaður. Við spurðum Ólaf hvernig skólinn væri um leið og hann steig út úr skólarútunni og hann sagði:

"I love it!"

Vonum bara að það haldist áfram. Edwin vinur hans er í skólanum í Brighton (gamla skólanum hans Egils Bjarna) og leiðist í pössuninni eftir skóla og finnst líka fáránlegt að þura að ganga eftir máluðum línum á gólfinu þegar hann er á rölti um ganga skólans. Allt í röð og reglu þar! En þetta á nú allt eftir að koma betur í ljós.

Fyrir utan apple pie þá held ég að ekkert sé amerískara en krakki að koma heim með gulri skólarútu.


Er hann ekki bara fínn í skólabúningnum?