Lestrarnám í landi tækifæranna
Ólafur Stefán er farinn að lesa töluvert mikið. Við fórum á foreldrafund í skólanum hans um daginn og það eru mörg prógröm í gangi til að kenna þeim að lesa, svo mörg, og kerfið er svo flókið að ég bara hreinlega skil það varla. En kennarinn hvetur þau áfram, skiptir þeim stundum upp í hópa, hlustar stundum á þau lesa í einrúmi og sitthvað fleira. Hún reynir að finna handa þeim bækur þar sem þau geta lesið 95% orðanna án vandræða, það ku víst vera hæfilega erfitt, annars er bókin of létt eða of snúin.
Og síðan er þeim mútað til að lesa. Ef hann nær að lesa fimm bækur á mánuði fær hann ókeypis pizzu á Pizza Hut. Og ef hann nær að skila inn stuttum greinargerðum um 10 bækur sem hann hefur lesið fyrir jól fær hann að borða hádegismat með kennaranum! Vá, það hlýtur að vera ekkert smá spennandi því að hann hefur verið gífurlega duglegur að lesa undanfarna daga.
En að öðru. Nú er hún amma mín veik, hún fékk blóðtappa í höfuðið og liggur á FSA blessunin. Við hugsum hlýtt til hennar. Það er gott að vita af henni á FSA.