16.7.07

I'm so proud of you...


Grandma hefur gott lag á strákunum sínum og kann að hrósa þeim þegar það á við. Hún var hér í heimsókn fyrr í sumar og fór þá að segja Finni hvað hún væri hreykin af honum þegar hann stóð sig vel. Þetta átti t.d. við þegar hann var duglegur að sitja á koppinum, eða þegar hann var hlýðinn og góður. Og Finnur var næmur á þetta og fór sjálfur að nota þetta óspart á Grandma á móti þegar honum þótti hún eiga hrós skilið. Og þá heyrðist í honum: "Grandma - I´m so proud of you!" Erfitt að springa ekki úr hlátri þegar hann segir þetta.
Í kvöld var ég inni á klósetti að pissa og Finnur sá til mín og þá glumdi náttúrulega í honum:
"Pabbi, I´m so proud of you!"

Myndin var tekin fyrr í sumar þegar Finnur var úti á stétt á brókinni og með aðra sem höfuðfat. Svo er hann líka í bol með mynd af Che Guevara og rauða veifu í hendinni.

11.7.07

Landlæknir BNA: Læknir eða strengjabrúða?

Var að lesa magnaða grein á NY Times vefnum um það hvernig núverandi stjórnvöld hér í landi tækifæranna taka pólitík óhikað fram fyrir vísindi og almenna heilbrigða skynsemi. Maður vissi svo sem um þetta sumt, sérstaklega hvað varðar hlýnun jarðarinnar, en nú hefur þingnefnd verið að yfirheyra fyrrverandi landlækna Bandaríkjanna til að reyna að komast að því hvort þeir hafi verið beittir óhóflegum pólitískum þrýstingi. Svarið er já.

Richard H. Carmona, landlæknir Bandaríkjanna frá 2002-2006, greindi frá því að stjórnvöld hafi hvað eftir annað reynt að draga úr innihaldi eða halda utan dreifingar mikilvægum heilsufarsskýrslum vegna pólitískra hagsmuna.

Hér eru nokkrir góðir punktar frá Dr. Carmona.

Reynt var að halda aftur af og draga úr orðalagi skýrslu sem sýndi fram á að óbeinar reykingar eru jafnvel hættulegri en áður var talið. Þegar stjórnvöld höfðuðu mál gegn tóbaksframleiðendum var honum ráðlagt gegn því að koma fram sem vitni við réttarhöldin.

Hann mátti hvorki tala né gefa út skýrslur um fósturvísastofnfrumur, neyðargetnaðarvarnir, geð-, fangelsis-, eða alheimsheilbrigðismál. Sumum af þessum umræðuefnum var eytt úr ræðum sem hann hafði samið.

Í einhverjum tilvikum mætti hann á fundi hlaðinn niðurstöðum vísindamanna, en það vildi enginn hlusta vegna þess að það var búið að ákveða stefnuna fyrir fram. Gott dæmi um þetta er kynlífsfræðsla, en stjórnin var búin að ákveða að skírlífisáróður yrði aðaláherslan sama hvað öllum rannsóknaniðurstöðum liði.

Hann var lattur til að fara á ólympíuleika fatlaðra vegna þess að samtökin sem standa fyrir þeim eru allt of tengd Kennedy fjölskyldunni.

Honum var gert að minnast þrisvar á Bush forseta á hverri blaðsíðu sérhverrar ræðu sem hann flutti.

Kemur ef til vill ekki á óvart að hann var ekki beðinn að sitja önnur 4 ár í starfi. Þeir fundu líka einn góðan kollega með ríkulegan skammt af hommafóbíu sem þeir ætla að sverja næst í embættið.

Og svo veittu þeir opinberu fé til sértrúarsafnaðar til að stunda afeitrun eiturlyfjafíkla.
Ó nei, fyrigefið þið mér, það var ríkisstjórn Íslands sem gerði það!

Þess má geta að Ólafur Ólafsson landlæknir var síðasti íslenski landlæknirinn sem ekki heyrði undir heilbrigðisráðuneytið, hann var skipaður af forseta og var ráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar. Þegar hann hætti var lögunum breytt og landlæknisembættið heyrir nú undir heilbrigðismálaráðuneytið.

Það er kannski víðar en hér vestra sem menn vilja geta haft góða stjórn á embættismönnum, landlæknum sem öðrum.

7.7.07

4. júlí

Við héldum 4. júlí hátíðlegan hér um daginn. Það var meira að segja íslenskur bragur yfir öllu saman vegna þess að ég var að berjast við að grilla í grenjandi rigningu. Sumarið hefur reyndar verið með eindæmum gott, mátulegur hiti, engin molla og nánast aldrei rignt, nú fyrr en náttúrulega 4. júlí.
Við fengum til okkar góða gesti, listræna fjölskyldan frá Íþöku heiðraði okku með nærveru sinni, og Halla systi Ásgríms var einnig með í för. Björk sá um skemmtiatriði að þessu sinni, sýndi dans.
Myndavélin var batteríslaus enn eina ferðina þannig að ég á því miður engar myndir af dansi Bjarkar.
Virkilega gaman að hittast en verst er að nú þurfum við bráðum að kveðja þetta góða fólk þar sem það ætlar að halda heim til íslands á vit nýrra ævintýra.

3.7.07

Hættulegasti mánuðurinn

Júlí er hættulegasti mánuðurinn hér vestra. Alla vega fyrir sjúklinga. Það byrja allir kandídatarnir sama daginn, fyrsta júlí, og þann mánuðinn eru lífslíkur sjúklinga á bandarískum spítölum verri en ella. Af þessu eru til ýmsar sögur, og hér kemur ein.

Fyrsta júlí í fyrra var ég að svæfa fyrir vini mína háls-, nef- og eyrnalæknana. Chandler var á vaktinni, læknanemi í gær, á vakt sem aðstoðarlæknir í dag. Allt í einu pípti píptækið hans og það kom mikið fát á karlinn. Nokkru síðar glumdu "bjöllurnar" og í hátalarakerfi spítalans var kallað akút eftir HNE á "herbergi 2". Eftir á að hyggja voru þetta undarlega skilaboð og ekki alveg nóg skýr, kannski að sú á skiptiborðinu hafi líka byrjað þann daginn? En hvað um það, Chandler dreif sig á skurðstofu 2 og hélt að þar væri einhver að deyja sökum bráðs skorts á öndunarvegi, en svo var ekki. Í ljós kom að kallið kom frá sjúklingaherbergi nr. 2 á slysó. Öll HNE hersingin fór síðan þangað. Nokkru síðar komu þeir allir aftur inn á skurðstofuna þar sem ég var og engdust og kútveltust um af hlátri. Það kom í ljós að þeir á bráðamóttökunni höfðu verið að reyna að barkaþræða (eða intúbera) sjúkling og óvænt lent í vandræðum. Var þá brugðið á það ráð að kalla á HNE til að skera sjúklinginn á háls til að bjarga honum frá bráðum súrefnisskorti. Þeir framkvæmdu reyndar ekki barkaskurðinn þrátt fyrir allt vegna þess að ástæðan fyrir því að ekki tókst að "intúbera" sjúklinginn á bráðamóttökunni var sú að hann var.......stífur.
Hann var búinn að vera dáinn svo lengi að hann var farinn að stirðna.

Þannig er það nú hjá því.

1.7.07

Önnur góð mynd


Hér er önnur góð mynd af drengjunum.

Vinir kvaddir



Við kvöddum góða vini hér í gær, þau Sigrúnu, Gísla, Einar og Egil. Þau eru farin frá Rochester, en góðu fréttirnar eru þær að þau ætla að setjast að á Akureyri, enda er allt best á Akureyri eins og ég hef ótt og títt haldið fram.
Það er búið að vera frábært að hafa þau hér í tvö ár og þau hafa öll staðið sig einstaklega vel. Þau eru líka landsbyggðarfólk, en það er sennilega besti undirbúningurinn undir það að búa í framandi landi að vera sjálfur frá litlum stað og afskekktum. Steingrímur frændi heldur því allavegana fram að slíkt fólk sé mestu heimsborgararnir og ég held að það sé rétt. Það er miklu erfiðara að fara í hina áttina: ég sá einu sinni mynd með Woody Allen, þar sem hann er með einhverjar meiningar um að búa einhversstaðar annars staðar en á Manhattan en eiginkona hans var fljót að benda honum á að hann hefði hvergi enst utan eyjunnar nema í örfáa daga, hann gæti hvergi annars staðar þrifist.

Þau skelltu sér í ferðalag í húsbíl um vesturströnd Bandaríkjanna í lok dvalarinnar og það verður gaman að sjá myndir úr ferðinni þeirri.

Grandma með strákunum sínum


Hér er mynd af grandma með þeim bræðrum.