3.7.07

Hættulegasti mánuðurinn

Júlí er hættulegasti mánuðurinn hér vestra. Alla vega fyrir sjúklinga. Það byrja allir kandídatarnir sama daginn, fyrsta júlí, og þann mánuðinn eru lífslíkur sjúklinga á bandarískum spítölum verri en ella. Af þessu eru til ýmsar sögur, og hér kemur ein.

Fyrsta júlí í fyrra var ég að svæfa fyrir vini mína háls-, nef- og eyrnalæknana. Chandler var á vaktinni, læknanemi í gær, á vakt sem aðstoðarlæknir í dag. Allt í einu pípti píptækið hans og það kom mikið fát á karlinn. Nokkru síðar glumdu "bjöllurnar" og í hátalarakerfi spítalans var kallað akút eftir HNE á "herbergi 2". Eftir á að hyggja voru þetta undarlega skilaboð og ekki alveg nóg skýr, kannski að sú á skiptiborðinu hafi líka byrjað þann daginn? En hvað um það, Chandler dreif sig á skurðstofu 2 og hélt að þar væri einhver að deyja sökum bráðs skorts á öndunarvegi, en svo var ekki. Í ljós kom að kallið kom frá sjúklingaherbergi nr. 2 á slysó. Öll HNE hersingin fór síðan þangað. Nokkru síðar komu þeir allir aftur inn á skurðstofuna þar sem ég var og engdust og kútveltust um af hlátri. Það kom í ljós að þeir á bráðamóttökunni höfðu verið að reyna að barkaþræða (eða intúbera) sjúkling og óvænt lent í vandræðum. Var þá brugðið á það ráð að kalla á HNE til að skera sjúklinginn á háls til að bjarga honum frá bráðum súrefnisskorti. Þeir framkvæmdu reyndar ekki barkaskurðinn þrátt fyrir allt vegna þess að ástæðan fyrir því að ekki tókst að "intúbera" sjúklinginn á bráðamóttökunni var sú að hann var.......stífur.
Hann var búinn að vera dáinn svo lengi að hann var farinn að stirðna.

Þannig er það nú hjá því.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim