Þrír tebollar
Ég var að ljúka við frábæra bók sem ég fékk í jólagjöf..... Three cups of tea nefnist hún og er saga Greg Mortenson. Hann er Bandaríkjamaður sem ætlaði sér að klífa K2 en varð frá að hverfa vegna þess að hann lagði í gífurlega erfiðan leiðangur til að bjarga öðrum fjallgöngumanni. Hann villtist síðan á leiðinni niður til byggða og missti af beygju á slóðanum. Það voru örlagarík mistök sem áttu eftir að breyta lífi hans svo um munaði. Hann kom í lítið pakístanskt þorp þar sem fólkið hlúði að honum. Þegar hann braggaðist fór hann að forvitnast um hagi fólksins og bað m. a. um að fá að sjá skólann. Það var sjálfsagt mál og það var farið með hann í "skólann" þar sem börnin voru að læra utandyra og skrifuðu með prikum í moldina í miklum kulda. Þessi sjón fékk svo mikið á hann að hann hét því að snúa aftur og byggja þarna skóla.
Og það gerði hann og gott betur. Frábær bók, og við lestur hennar verður manni ljóst að þetta er uppskriftin að baráttunni fyrir friði og bættum hag fátækra, ekki hvað síst kvenna.