28.6.07

Á slóðum Amish fólksins

Við vorum að koma heim frá tengdamömmu. Voru þar í um 4 daga. Það er mjög fallegt þar sem hún á heima mitt á slóðum Amish fólksins. Það er vinalegt að sjá hesta fyrir vögnum og þvott úti á snúrum á sveitabæjunum. Og svo trúir maður varla eigin augum þegar maður sér hest draga plóg úti á akri. En þau eru með sundlaug og drengirnir kunnu vel að meta það. Einar, Egill, Sigrún og Gísli komu í heimsókn til okkar þar og gistu eina nótt. Það vildi svo vel til að við vorum þarna akkúrat þegar þau voru á leiðinni til baka frá því að raða í gáminn sem þau eru að senda heim til Íslands. Ég varð síðan veikur, er með bronkítis og treysti mér ekki í vinnu í dag þar sem ég var með hita og vaknaði í svitapolli í nótt.

21.6.07

Tærnar hans Phinns


Finnur var að skoða á sér tærnar og tók upp á því að nefna þær.
Þær (á hægri fæti) nefnast Mamma toe, Finnur toe, Einar toe, Egill toe og Pabbi toe.

Og Phinnur var að fá boðskort í afmæli! Fólki hér gengur svona alla vegana að bera fram og skrifa íslensku nöfnin.

20.6.07

Hver kálaði rafmagnsbílnum?

Sáum myndina Who killed the electric car um daginn. Alveg hreint stórgóð.

Þannig var að Californiufylki setti lög um að bílaframleiðendur yrðu að bjóða upp á zero emission bíla til að mega selja bíla í fylkinu. Þeir urðu að því að gjöra svo vel og hanna rafmagnsbíla. GM framleiddi EV1 bílinn sem reyndist mjög vel En bílaframleiðendurnir voru alltaf á móti hugmyndinni og fengu lögunum breytt fyrir rest. Þá datt allur þrýstingur niður og þeir hættu að framleiða bílana. En það var ekki nóg með það, því þeir innkölluðu þá líka (þeir voru allir í leigu, það mátti ekki kaupa þá). Fólkið sem hafði fengið að nota þá var hissa á þessu og mjög margir vildu reyna að kaupa bílinn sinn þegar leigusamningurinn rann út. En það var ekki tekið í mál. Síðan var mikið leyndarmál hvað átti að gera við þá. Það kom í ljós að GM fór með bílana til Arizona og lét eyðileggja þá! Fólkið sem hafði haft bílana á leigu var náttúrulega alveg eyðilagt yfir því....

Ýmislegt annað skemmtilegt kemur fram í myndinni eins og t.d. að fyrirtækið sem fann upp bestu rafhlöðuna fyrir EV1 var keypt upp af olíufyrirtæki.

Boðskapur myndarinnar er sá að framtíðin er núna, það er búið að finna lausnina og hún er einföld og endingargóð. Vandamálið er bara það að það yrðu svo margir taparar ef bensínvélunum yrði ýtt af markaði, þ.e. bíla- og olíuframleiðendur. Þess vegna passa þeir og reyna í fremstu lög að halda aftur af þróuninni.

Vetnisbílar fá fremur lélega einkun í myndinni. Þeir eru dýrir og það þarf dýran infrastrúktur til þess að allt virki (rafmagnsbíll þarf bara venjulega innstungu...) Það er búið að halda vetnisbílunum á lofti áratugum saman og alltaf er fólki sagt að það séu 10 - 15 ár í að þeir komi á markað. Á meðan halda þeir áfram að framleiða bensínblíla (sem þurfa mikið viðhald) og dæla og selja okkur olíu.

En kannski maður ætti að hætta þessu væli og fá sér almennilegan sportbíl.
4 sek upp í hundraðið,
.....og fer 200 mílur á hleðslunni!
Kostar 100 þúsund dollara.
Framtíðin er komin. Meira um bílinn hér.

18.6.07

Útskriftin úr kindergarten



Ólafur Stefán var að útskrifast úr kindergarten. Hann var sæll og glaður og fékk meira að segja ameríska útskriftarhúfu. Krakkarnir í bekknum höfðu fengið það hlutverk að velja viðeigandi sæmdartitil handa hverjum og einum. Það voru gefin verðlaun fyrir fallegasta brosið, besta dansarann, besta tölvukarlinn og síðan voru að sjálfsögðu gefin prúðmennskuverðlaun (man ekki betur en ég hafi fengið þau þegar ég útskrifaðist úr Barnaskóla Íslands.) Ólafur Stefán fékk plagg fyrir að vera "the most informed". Sem sagt sá upplýstasti....
Sennilega vegna þess að hann er alltaf að segja krökkunum einhverjar miðaldasögur sem hann hefur frá grandma.

Hérna er mynd af kappanum og síðan er önnur með honum ásamt kennurunum sínum Ms. Deniz og Mr. Justin.

Finnur vildi auðvitað líka útskrifast.

14.6.07

Heimsókn til Íþöku

Við skelltum okkur í heimsókn til Auðar, Bjarkar, Lindu og Ásgríms í Íþöku um síðustu helgi. Alltaf jafn gaman að hitta þau. Þegar við renndum í hlað, um miðjan dag á fádæma blíðviðrisdegi, lágu þau náttúrulega yfir sjónvarpinu. Kannski búin að vera aðeins of lengi hér fyrir westan....
Þau voru nú reyndar að skoða stórmerkilega heimildamynd um ferð fjölskyldunnar síðasta sumar á húsbíl þvert fram og til baka yfir Bandaríkin. Þetta hefur greinilega verið hin ágætasta ferð.
Við fengum frábæran hádegisverð hjá þeim og skelltum okkur síðan öll að skoða Tauchannock fossana sem eru þar rétt hjá. Áin fyrir neðan aðal fossinn rennur víða á flötu bergi þannig að það er hægt að ganga og busla upp og niður eftir henni allri.
Við kvöddum þau þar sem þau þurftu að fara heim og matreiða ofan í aðra gesti. Við keyrðum heim nýja leið meðfram vatninu og fengum alveg frábært veður, útsýni og ís á leiðinni.

Mikið ofboðslega er yfirleitt falleg allsstaðar í góðu veðri þar sem skiptast á trjálundar, tún og úhagi. Ég er alltaf að læra að meta þetta svæði (Fingerlakes) betur og betur.

Linda bloggaði um heimsóknina og tók líka fullt af myndum á nýju flottu myndavélina þeirra.

Þeir Cambridege búar eiga svo sannarlega von á góðri sendingu nú í haust þegar þau flytja öll þangað, og ég segi þetta ekki bara vegna þess að við Ásgrímur erum frændur.

12.6.07

Úðarinn




Egill Bjarni og Einar Árni komu í heimsókn í gær og það var svo heitt að þeir skelltu sér allir í sundskýlur og fóru í úðarann. Ólafur Stefán tók sig mjög vel út í nýju dönsku sundskýlunni (Takk Helga Sólveig!).

Læt fylgja með nokkrar myndir.

11.6.07

Fjallamenn




Sumir voru þreyttir eftir fjallgönguna. Ólafur Stefán klifraði hinsvegar inn á sprungu sem hann komst einn inn í og kom síðan út annars staðar. Það þótti honum gaman. Tókum síðan eina klassíska mynd af Meredith að komast upp á blábrúnina.

7.6.07

Fögur fjallasýn




Það er ótrúlega fallegt í Vermont og New Hampshire. Frá heimili tengdapabba má sjá fallegt fjall sem heitir Mount Ascutney. Við fórum þangað í smá fjallgöngu daginn sem við keyrðum heim. Frá toppinum má sjá bæði yfir til Vermont og NH. Það er einstaklegalega lítill og fallegur bær við rætur fjallsins í Vermont sem heitir Brownsville. Gaman að koma svona hátt upp og sjá allar þessar hæðir og fjöll og ása. Ólafur náði þarna að leika klifur eftir móður sinni, eitthvað sem hún hafði gert á sama stað sem barn.

5.6.07

Frændur



Hér eru myndir af þeim frændum, uncle Matt, Ólafi Stefáni, Finni og Uncle Jeff. Meredith er síðan með á neðri myndinni.

3.6.07

Á kajak á Connecticut ánni




Jeff bróðir Meredith er mikill útivistar- og ævintýramaður. Hann hafði leigt sér kajak þegar hann var heima í NH og fór nánast á hann á hverjum degi á Connecticut ánni sem rennur þarna rétt hjá. Þetta er flatbotna kajak sem er hannaður til að leika sér á í flúðum í ám. Verulega óstöðugur og ég var fjótur að hvolfa honum þegar ég prófaði hann í lygnum polli í ánni. Jeff gat hinsvegar verið á honum í flúðunum og haldið sér kyrru í ánni með því að vera uppi á öldu og stefna upp í strauminn. Strákarnir fengu að sitja á bátnum hjá honum og þótti auðvitað gaman.