Nú fer að styttast í að við þurfum að ákveða í hvaða skóla Ólafur Stefán á að fara. Það er eins og með svo margt í þessum heimi, að lífið er einfaldara á Íslandi þar sem maður þarf ekki að taka jafn margar ákvarðanir, maður sendir barnið sitt bara í skólann. Hér koma nokkrir helstu möguleikarnir:
Almenningsskólarnir í Rochester:Skólarnir þykja ekki góðir og það er ein aðalástæðan fyrir því að ungt menntafólk eins og við á að flytja úr borginni í úthverfin þegar elsta barnið kemst á skólaaldur. Við fórum nú samt með opnum huga á kynningu hjá þeim en ég gerði nú eiginlega upp minn hug um leið og ég gekk inn í bygginguna og rak augun í skilti þar sem tekið var fram að skotvopn væru ekki leyfileg í skólanum. Og nota bene, þessi skóli er bara K-5, ekki high school! Það eru samt til nokkrir góðir skólar á vegum borgarinnar, en við misstum svolítið af lestinni vegna þess að við héldum Ólafi Stefáni á leikskólanum í kindergarten, en hefðum getað sett hann í skóla þá.
Almenningsskólarnir í Pittsford eða Brighton: Pittsford og Brighton eru úthverfi í kringum Rochester og þar þykja skólarnir vera með því besta sem gerist í öllum Bandaríkjunum. Okkur þykir þó að krakkarnir séu keyrðir töluvert hart áfram í Pittsford, og það er dálítið sérstakt að vera í bæjarfélagi þar sem allt snýst um þessa æðislegu skóla. Við kunnum bæði mjög vel við Brighton og það væri vissulega möguleiki að flytja þangað (og kaupa dýrara hús og borga hærra útsvar). Eins og staðan er í dag viljum við samt helst ekki flytja, kunnum vel við okkur í okkar hverfi, erum nálægt vinnunni og síðan vitum við ekki hvað við verðum lengi hér í Rochester.
Cobblestone: Þetta er lítill einkarekinn skóli niðri í bæ sem virðist sinna sínum krökkum mjög vel. Skólagjöld yrðu c.a. $8000 á ári. Höfðar að einhverju leyti til barna með sérþarfir. Við þekkjum stelpu sem er nemandi þarna og hún er mjög ánægð, var fyrsta árið í almenningsskóla í Rochester þar sem hún lenti í því hlutverki að vera nánast aðstoðarkennari í bekknum. Ég batt miklar vonir við þennan skóla, og ég sá þar margt verulega gott, eins og t.d. spurningarnar sem 5-6 ára krakkarnir vildu leita svara við þegar þau vorum að læra um geiminn. Er himnaríki partur af geimnum? Eru bein á Mars? Hversvegna er stjörnurnar í laginu eins og þær eru? En Cobblestone náði samt ekki alveg að heilla mig. Mér fannst stundum að þar væri dálítill losarabragur og ringulreið á hlutunum.
Genesee County Charter School: Þetta er einhverskonar tilraunaskóli á vegum hins opinbera. Engin skólagjöld, þykir vera mjög góður. Kennslan er óhefðbundin, þeir þurfa ekki að fylgja námsskránni og eru hvorki með próf né endalausan heimalærdóm. Námið snýst í kring um þema hérna í umhverfinu og þau vinna oft mjög flott og metnaðarfull verkefni. Gerðu t.d. verkefni um skipaskurðinn og möguleika út frá honum í miðbænum og sú skýrsla var kynnt fyrir borgarstjóranum. Mjög mikil samkeppni um pláss, við hefðum átt að sækja um fyrir Ólaf þar í fyrra og hefðum þá kannski átt smá möguleika. Höfðar mjög sterkt til þeirra sem búa í borginni en telja borgarskólana vera lélega, og eins til hinna sem þola ekki endalaus próf og heimalærdóm og vilja prófa nýjar leiðir í menntun.
Allendale Columbia og Harley: Þetta eru hvorutveggja dýrir, mjög góðir einkaskólar eða prep school, þ.e. þeir miða að því að undirbúa nemendurna undir háskólanám. Í Allendale Columbia er hefðbundin góð kennsla, ekki endalaust föndur alla daga. Denise nágrannakonu finnst þetta góður kostur fyrir Ólaf. Harley er líka hrikalega flottur og góður skóli, en svolítið óhefðbundnari og meira "granola" en Allendale Collumbia. Hreint út sagt frábær skóli þar sem nemendum er vel sinnt og það er passað upp á að ekki verði einelti og leiðindi til staðar. Þeir eru með sína eigin sundlaug og glænýtt glerstúdíó. Maður gæti haldið að þarna séu einungis börn ríkra foreldra en svo er ekki, mörg börnin fá styrki og svo eru þarna börn foreldra sem ekki eru rík en leggja ofuráherslu á góðan skóla. Skólagjöldin hjá þeim báðum? Ekki nema um $15000 á ári.....
Hann Ian vinur okkar er mikill talsmaður Harley. Hann ólst upp í Rochester og gekk í Harley (foreldrar hans höfðu efni á að senda hann þangað vegna þess að mamma hans vann í skólanum og fékk þessvegna góðan afslátt á skólagjöldunum). Þaðan fór hann til Harvard og endaði síðan á Íslandi! Hann hefur ekkert nema góða hluti um skólann að segja og mælir með því að við sendum Ólaf þangað.
Nazareth Hall: Nazareth Hall er kaþólskur skóli. Við höfðum útilokað nokkra svoleiðis skóla á ýmsum forsendum. Einn var verulega snobbaður og of kaþólskur (98% nemenda kaþólskir). Í öðrum hékk plakat uppi á vegg með sögu heimsins, en samkvæmt því varð heimurinn til um 4000 árum fyrir krist....
En síðan fór ég í kynningu í Nazareth Hall og varð mjög heillaður. Þetta er lítill skóli, í eldgamalli byggingu. Lyktin og kaþólsku líkneskin minna á húsið hennar "Grandma Cricco" og svo brakar í stigunum eins og í MA. Þeir eru með ágæta blöndu af krökkum, 50% kaþólskir og 50% hvítir. Ég fékk bara einhvernvegin mjög góða tilfinningu fyrir þessum skóla. Helsti gallinn er sá að hann er dálítið langt í burtu. Verð?? Um $4500 á ári.
Jæja, þarna hafið þið það, þetta eru nokkrir helstu möguleikarnir.