28.11.06

Thanksgiving



Við fórum niður til New Jersey um Thanksgiving og vorum í veislu hjá föðurfjölskyldunni hennar Meredith a sjálfan fimmtudaginn. Veislan var haldin á nokkurskonar gólfklúbbi og það var hlaðborð. Við hittum marga og það var mjög gaman. Gistum hjá ömmu hennar Meredith í Hoboken eins og svo oft áður og það var gaman að labba út á bakkann og horfa yfir á ljósum skreytta borgina hinum megin við Hudson ánna.

Thanksgiving er hátíð allra hátíða hér í Bandaríkjunum og á svo margan hátt miklu stærri hátíð en jólin. Hún snýst um samveru fjölskyldunnar og góðan mat, og það geta allir verið með þar sem ekki er um trúarhátíð að ræða og allir geta borðað kalkún.

Á laugardeginum fórum við síðan í heimsókn til móðurfjölskyldunnar hennar Meredith. Ólafur Stefán var mjög spenntur vegna þess að þar á hann frænda sem er jafnaldri hans og félagi. Við ókum síðan heim seinnipart dags, en stoppuðum vel og lengi hjá Berglindi, Ásgrími, Auði og Björku í Ithaca. Þau voru með Thanksgivingveislu og voru búin að elda dásamlega góðan kalkún ásamt fínasta meðlæti. Okkur fannst þessi veisla í Ithaca á margan hátt hafa yfir sér meiri ekta Thanksgiving brag en sú í NJ, enda tapast heimilisbragurinn ef haldin er veisla með hlaðborði fyrir fjölda manns á veitingastað. Kalkúnninn fékk hæstu einkunn hjá Meredith og við mælum eindregið með því við hvern sem fær því við komið að halda upp á Thanksgiving hjá þeim listakokkum í Íþöku.

Efri myndin er af Björku og Ólafi Stefáni er þau grettu sig og geifluðu með fuglinn í forgrunni. Neðri myndin er af Finni sælum og glöðum í veislunni í NJ.

26.11.06

Sætur strákur - frítt kaffi


Ég fór með Ólaf í skólann um daginn og fann síðan skyndilega fyrir gríðarlegari kaffiþörf og ákvað að skella mér á Starbucks með Finni. Ég var búinn að panta kaffið þegar ég uppgötvaði að ég var ekki með veskið með mér. Þetta er ólíkt mér vegna þess að ég er yfirleitt alltaf með það á mér. Ég ætlaði að hætta við en þá sagði afgreiðslukonan að þetta væri allt í lagi, þetta gæti komið fyrir besta fólk og kaffið myndi bara kosta einn lítinn strák! Sjaldan hefur Starbuckskaffið smakkast betur. Ég komst síðan að því að sú sem afgreiddi mig var sú sem rak staðinn þannig að ég held að ég hafi bara verið svona heppinn að lenda á henni.
Ég var svo bjartsýnn eftir þessa reynslu að ég ákvað að skella mér í Macys og kaupa skyrtu og bindi og enn var ég veskislaus. Það gekk ekki eins vel þar eins og á Starbucks, en maðurinn sem afgreiddi mig sagði mér reyndar að ef ég hefði haft ökuskírteinið á mér hefði hann getað flett upp kortanúmerinu og afgreitt mig. Þá sá ég mér þann kost vænstan að drífa mig heim, enda bæði peningalaus og kolólöglegur í umferðinni.

20.11.06

Dagur í Disney World



Á fimmtudaginn skelltum við Ólafur Stefán okkur í Disney World. Þær Björk og Berglind komu með okkur og við skildum þær síðan eftir í Orlando. Ég var nú bara svona mátulega spenntur fyrir þessu enda margir í kring um mig búnir að vara mig við, bæði að það yrði dýrt og að dagurinn yrði langur og strangur og börnin alveg spólandi vitlaus af spenningi og myndu leka niður í síendurteknum frekjuköstum. En það brugðust allar hrakspár og dagurinn var virkilega skemmtilegur.

Við fengum gott veður, skýjað en ekki of heitt og alls ekki of margir í garðinum. Við ákváðum að taka bara fyrir The Magic Kingdom og þegar þangað var komið fékk ég deja vu tilfinningu, þ.e. mér fannst eins og ég hafi verið þarna áður. Og auðvitað hafði ég verið þarna áður, 10 ára gamall með mömmu og pabba og Lýð og Sigfúsi. Ég mundi eftir að hafa farið í einhverja skemmtigarða en ekki nákvæmlega að ég hafi verið þarna. Og það sem kom mér mest á óvart var að allt er eins og það var, það virðist nánast engu hafa verið breytt. Ég man hvað sumt af þessu virkaði sterkt á mig fyrir bráðum 25 árum síðan. Þar má nefna Progress sýninguna og síðast en ekki síst Space Mountain sem er rússíbani inni í húsi. Það er ekkert auðvelt að fara í rússíbanaferð í kolniðamyrkri inni í húsi og ég þoldi þetta sennnilga betur sem barn. Ólafur rétt slapp hvað hæðarmörkin varðar og gat farið í þennan rússíbana og stóð sig mjög vel. Ég held þó að Björk hafi ekki verið mér neitt sérstaklega þakklát fyrir að hafa drifið alla í Space Mountain, hún var lítið spennt fyrir rússíbönum það sem eftir lifði dags.

Þau Björk og Ólafur Stefán voru mjög prúð og stillt og urðu aldrei yfirkeyrð af spenningi. Enda erum við bara rétt svo mátulega hrifin af Disney dæminu öllu saman og reynum eins og við mögulega getum að komast hjá því að leyfa strákunum að horfa á þessar teiknimyndir.

Ólafur hefur hinsvegar séð Pirates of the Caribbean og við fórum í einhverskonar bátsferð í gegn um sjóræningjasýningu. Við þurftum reyndar að fara á klósettið fyrir ferðina og það vildi þannig til að maður þurfti að fara í gegnum búð með allskonar sjóræningjadrasli til að komast á klósettið. Þá hófust samningaviðræður um hvað eða hvort eitthvað ætti að kaupa. Ég snéri mér út úr því með því að lofa að athuga málið eftir ferðina í þeirri vona að hann myndi gleyma þessu á meðan. En þeir hjá Disney vita alveg hvað þeir eru að gera og þegar ferðin var búin var útgangurinn einmitt aftast í búðinni....
Ég gat komist hjá því að kaupa sverð og byssu, en endaði með að kaupa sjóræningjahatt og sjóræningjalepp (smá leðurpjattla og kostaði 10 dollara!). Ég gat hinsvegar ekki betur séð en að sjóræningjarifflarnir sem voru til sölu í búðinni væru nánast alveg eins og rifflarnir sem voru keyptir þarna 1982 og eru sennilega enn til í Oddeyrargötunni og vekja áreiðanlega mikla lukku nú sem endra nær.

18.11.06

Heim úr sólinni og sælunni


Jæja, þá erum við komin heim. Við eyddum viku niðri í Fort Myers á Flórída þar sem að tengdapabbi á hús. Húsið er veglegt, bæði með sundlaug og potti og er staðsett í hverfi þar sem að öll húsin eru byggð af sama aðila og líta nánast eins út og öllu er viðhaldið fyrir eigendur. Það liggur líka gólfvöllur í gegn um hverfið og síðan eru tennisvellir og fleira til afþreyingar. Dálítið sérstakt, nánast eins og að vera staddur í sjónvarpsauglýsingu. Rob og Kate og Maria voru þarna og svo fengum við góða heimsókn þegar Björk og Berglind komu frá Ithaca. Þær voru á leið í læknisheimsókn og gátu eytt nokkrum dögum með okkur. Ólafur Stefán var mjög ánægður með að hafa félagsskap og þau Björk lágu samfellt í pottinum og sundlauginni klukkustundum saman. Við skelltum okkur til Disney World einn daginn, en ég segi nánar frá því síðar.

Hér að ofan er mynd af þeim, ég sagði þeim að þau væru orðin að fiskum vegna þess hvað þau hefðu verið lengi ofan í.

6.11.06

Við Finnur og Bill


Dagurinn í dag leit út fyrir að ætla að verða bara svona venjulegur dagur, en það breyttist nú heldur betur. Við vorum að hlusta á útvarpið í morgun og þá var tilkynnt að Bill Clinton yrði hérna á kosningafundi úti á flugvelli kl 10. Við Finnur vorum hvort eð er á ferðinni, þannig að við skelltum okkur. Þetta hlýtur að hafa verið boðað með mjög stuttum fyrirvara vegna þess að það voru ekki nema 100 - 200 manns á fundinum sem fór fram fyrir utan flugskýli. Þegar við komum biðu allir fyrir utan flugvallargirðinguna og ég hélt að við kæmumst kannski ekki nær en síðan lenti einkaþota Clintons og þá var öllum hleypt inn. Frá sjónarhorni Finns var þetta mjög spennandi, þarna bar fyrir augu þyrlu, flugvélar, þotur, húsbíl og nokkra löggubíla. Við stóðum nálægt púltinu en Finnur var töluvert farinn að ókyrrast eftir fjórar ræður þegar loksins var komið að Clinton þannig að ég smellti af einni mynd en færði mig síðan aftar þannig að Finnur myndi ekki alveg stela senunni....

Hann hélt síðan magnaða ræðu, eins og hans var von og vísa. Það er engin tilviljun að þessi maður skuli einu sinni verið valdamesti leiðtogi heims. Í lokin stóð ég til hliðar og var að sýna Finni inn í flugskýlið þegar Clinton kom þar sem við stóðum og fór að heilsa fólki. Ég smellti af honum þessari mynd, setti myndavélina í vinstri höndina, rétti fram hægri spaðann og viti menn, hann heilsaði mér.

Ég var síðan uppveðraður af þessu í allan dag og var rétt að ná mér niður við uppvaskið eftir kvöldmatinn þegar síminn hringdi, og hver haldið þið að hafi verið að hringja í mig nema auðvitað hún Hillary! Mikið hlýt ég að vera mikilvægur í augum þeirra hjóna fyrst að hann heilsar mér og hún hringir síðan í mig seinna sama dag!

Jæja, allt í lagi, þetta var ekki eiginlegt símtal, meira svona upptaka af segulbandi þar sem hún var að biðja mig að kjósa sig. En samt.

Eins gott að hvorugt þeirra veit að ég er ekki ríkisborgari heldur bara "viðvarandi íbúi" (permanent resident) og má þess vegna ekki kjósa á morgun.

1.11.06

Halloween



Halloween var þann 31.10. og það var mikið fjör. Egill og Einar komu og fóru með Ólafi og Finni út að banka upp á og biðja um nammi hér í hverfinu. Neðri myndin var tekin þegar haldið var að stað og sú efri þegar verið var að skoða afraksturinn. Á þeirri mynd eru þeir allir í einhverskonar nammi-coma nema Einar, sem er greinilega mesta efnið í tannlækni í hópnum, þar sem að hann situr hinn rólegasti og er að lesa bók.

Góðir gestir


Við fengum góða gesti í heimsókn á mánudaginn. Þar voru á ferðinni þau Sunna Gestsdóttir (fljótasta konan sem Ísland hefur átt) og Héðinn héraðslæknir Sigurðsson. Þau stoppuðu í rétt rúman sólarhring og ég held að ég hafi aldrei náð að sýna nokkru fólki jafn mikið á jafn skömmum tíma. Við ókum um Park Ave. og East Ave., fórum í Ravioli búðina, borðuðum hádegismat á Dinosaur BBQ, skoðuðum Wegmans búðina í Pittsford, fórum á leikskólann að ná í strákana, komum við á róluvellinum og heldum síðan heim þar sem við vorum með matarveislu þar sem Sigrún og Gísli og Anton og Sigga mættu með sín börn. Þar var mikið spjallað. Daginn eftir fórum við í bókabúðina á spítalanum, síðan í Eastview Mall, þar sem keyptur var Ipod og verslað sitthvað fleira. Við borðuðum hádegismat á kínverska staðnum PF Cheng's og síðan keyrði ég með þau um nýtt hverfi í Victor til að sýna þeim ameríska drauminn, þ.e. risastór hús eða "homes" með þreföldum bílskúrum í botnlangagötum og sundlaugum í bakgörðum þar sem búið er að höggva öll tré. Við enduðum síðan á að fara í Guitar Center þar sem Héðinn keypti strengi og við vorum sammála um að næst þyrfti hann að hafa með sér gám eða a.m.k. nokkur bretti.

Hér að ofan er mynd af Finni ásamt "afa og ömmu". Finnur bað nefnilega "afa" að lesa fyrir sig og bar síðan kennsl á sjálfan sig, "ömmu" og "afa" á þessari mynd.