Thanksgiving
Við fórum niður til New Jersey um Thanksgiving og vorum í veislu hjá föðurfjölskyldunni hennar Meredith a sjálfan fimmtudaginn. Veislan var haldin á nokkurskonar gólfklúbbi og það var hlaðborð. Við hittum marga og það var mjög gaman. Gistum hjá ömmu hennar Meredith í Hoboken eins og svo oft áður og það var gaman að labba út á bakkann og horfa yfir á ljósum skreytta borgina hinum megin við Hudson ánna.
Thanksgiving er hátíð allra hátíða hér í Bandaríkjunum og á svo margan hátt miklu stærri hátíð en jólin. Hún snýst um samveru fjölskyldunnar og góðan mat, og það geta allir verið með þar sem ekki er um trúarhátíð að ræða og allir geta borðað kalkún.
Á laugardeginum fórum við síðan í heimsókn til móðurfjölskyldunnar hennar Meredith. Ólafur Stefán var mjög spenntur vegna þess að þar á hann frænda sem er jafnaldri hans og félagi. Við ókum síðan heim seinnipart dags, en stoppuðum vel og lengi hjá Berglindi, Ásgrími, Auði og Björku í Ithaca. Þau voru með Thanksgivingveislu og voru búin að elda dásamlega góðan kalkún ásamt fínasta meðlæti. Okkur fannst þessi veisla í Ithaca á margan hátt hafa yfir sér meiri ekta Thanksgiving brag en sú í NJ, enda tapast heimilisbragurinn ef haldin er veisla með hlaðborði fyrir fjölda manns á veitingastað. Kalkúnninn fékk hæstu einkunn hjá Meredith og við mælum eindregið með því við hvern sem fær því við komið að halda upp á Thanksgiving hjá þeim listakokkum í Íþöku.
Efri myndin er af Björku og Ólafi Stefáni er þau grettu sig og geifluðu með fuglinn í forgrunni. Neðri myndin er af Finni sælum og glöðum í veislunni í NJ.