Tónleikar: Death Cab For Cutie
Við fórum á tónleika á föstudagskvöldið með minni uppáhaldshljómsveit um þessar mundir - Death Cab For Cutie. Vinir okkar Karen og Chris fóru með okkur og grandma passaði strákana og Anna dóttur þeirra. Það var einmitt Chris sem benti mér á þessa hljómsveit og ég varð svo hrifinn að ég skellti mér á tónleika með þeim í Ithaca fyrr á árinu og dró Ásgrím frænda með. Ég frétti síðan að þeir væru að koma til Rochester og sagði Chris frá því þegar ég rakst á hann fyrir utan húsið þeirra. Hann tók þvílíkt viðbragð, stökk upp, fór inn, náði í fartölvuna og fékk sér miða á stundinni. En þessir tónleikar voru því miður ekki jafn góðir og tónleikarnir í Ithaca, hljóðið var alls ekki nógu gott, það var eins og maður væri kominn á hljómsveitakeppni í Gaggó þar sem bassin er svo yfirgnæfandi að hann kæfir allt annað og maður finnur sjalfan sig titra með í hvert skipti sem slegið er á streng. Við Chris vorum báðir að spá í hvað hefði eiginlega komið fyrir hljóðmanninn sem átti að sjá um tónleikana, það gæti bara ekki verið að réttur maður væri að hræra í tökkunum. Þetta lagaðist reyndar aðeins þegar á leið og hlómsveitin er frábær, það verður ekki frá þeim tekið. Söngvarinn, Ben Gibbard, er þvílíkt fjölhæfur, hann spilar á gítar og hljómborð, oft hvort tveggja í sama laginu og undir lokin var rótað upp öðru trommusetti í miðju lagi sem hann síðan spilaði á.
Mér finnst myndin flott, enda tók ég hana ekki heldur en stal henni af flickr.com. Þetta var sviðsmyndin sem þeir notuðu á tónleikunum í Ithaca.