29.10.06

Tónleikar: Death Cab For Cutie


Við fórum á tónleika á föstudagskvöldið með minni uppáhaldshljómsveit um þessar mundir - Death Cab For Cutie. Vinir okkar Karen og Chris fóru með okkur og grandma passaði strákana og Anna dóttur þeirra. Það var einmitt Chris sem benti mér á þessa hljómsveit og ég varð svo hrifinn að ég skellti mér á tónleika með þeim í Ithaca fyrr á árinu og dró Ásgrím frænda með. Ég frétti síðan að þeir væru að koma til Rochester og sagði Chris frá því þegar ég rakst á hann fyrir utan húsið þeirra. Hann tók þvílíkt viðbragð, stökk upp, fór inn, náði í fartölvuna og fékk sér miða á stundinni. En þessir tónleikar voru því miður ekki jafn góðir og tónleikarnir í Ithaca, hljóðið var alls ekki nógu gott, það var eins og maður væri kominn á hljómsveitakeppni í Gaggó þar sem bassin er svo yfirgnæfandi að hann kæfir allt annað og maður finnur sjalfan sig titra með í hvert skipti sem slegið er á streng. Við Chris vorum báðir að spá í hvað hefði eiginlega komið fyrir hljóðmanninn sem átti að sjá um tónleikana, það gæti bara ekki verið að réttur maður væri að hræra í tökkunum. Þetta lagaðist reyndar aðeins þegar á leið og hlómsveitin er frábær, það verður ekki frá þeim tekið. Söngvarinn, Ben Gibbard, er þvílíkt fjölhæfur, hann spilar á gítar og hljómborð, oft hvort tveggja í sama laginu og undir lokin var rótað upp öðru trommusetti í miðju lagi sem hann síðan spilaði á.

Mér finnst myndin flott, enda tók ég hana ekki heldur en stal henni af flickr.com. Þetta var sviðsmyndin sem þeir notuðu á tónleikunum í Ithaca.

24.10.06

Ungur maður og heldur hissa.



Ólafur Stefán var kominn með lausa tönn áður en hann fór í heimsókn til grandma. Það kom mér samt verulega á óvart þegar hún hringdi og tilkynnti okkur að hann væri búinn að missa fyrstu barnatönnina. Þau fóru saman á lestasafn og hann sat og var að maula á samloku þegar að tönnin kom allt í einu út. Grandma var með Kodak digital vélina nærtæka og náði þessum dásamlegu myndum af viðburðinum.

Fjarafmæli


Ólafur Stefán fór með ömmu sinni heim um síðustu helgi og ætlar að vera hjá henni í viku. Meredith átti afmæli í dag (alltaf jafn ungleg) og þar sem Ólafur gat ekki verið viðstaddur afmælið bakað hann köku með grandma og sendi mömmu sinni mynd af henni í tölvupósti!

20.10.06

Barnið mitt stattu þig, skaraðu fram úr


Lífið er keppni og það byrjar snemma hér kapphlaupið um að komast sem lengst í lífinu. Ég var í barnaafmæli fyrir stuttu og fór að spjalla við eina mömmuna eins og gengur. Það kom í ljós að hún var verkfræðingur að mennt og átti heima í einni fínustu götunni í einu flottasta úthverfinu hér á svæðinu. Hún var með 5 ára son sinn með sér. Sá var alls ekki lítill og ég gerði ráð fyrir því að hann væri í kindergarten eins og Ólafur og stelpan sem átti afmæli. En hún sagði mér að þau hafi ákveðið að bíða í eitt ár með að setja hann í kindergarten og þess vegna væri hann í pre-K sem er leikskóli fyrir 4 ára börn. Það skal tekið fram að hér í Bandaríkjunum er almennt ekki miðað við áramót þegar skipt er á milli árganga í skólum heldur er frekar valinn dagur sem er nær upphafi skólaársins. Þannig ættu allir þeir sem eiga afmæli eftir 1. október að lenda í bekk með "árganginum" á eftir. Hvert skólaumdæmi ræður því síðan hver þessi dagur er. Hún gaf ýmsar útskýringar á þessari ákvörðun eins og að hann væri svo "creative" og eitthvað fleira. Ég leit aftur á strákinn og hugsaði með mér að hann hlyti að vera eitthvað tregur greyið fyrst að honum væri haldið eftir í skóla. Sá samt ekki betur en að hann hegðaði sér bara alveg eins og öll hin börnin.

Þegar ég kom heim talaði ég við Meredith og fékk útskýringu á þessu. Svo skemmtilega vildi til að það var einmitt grein á vefsíðu The New York Times um sama efni daginn eftir. Drengurinn er bara eðlilegur en foreldrarnir eru að reyna að tryggja honum forskot í skóla á bekkjarsystkinin. Hann verður orðinn sex ára þegar hann byrjar í kindergarten og hefur náttúrulega heilmikið þroskast á þessu eina ári. Hann verður mannalegri og mun eiga auðveldara með að tileinka sér námsefnið. Hann verður aldrei minnstur í bekknum og það er líklegra að hann verði leiðtogi innan bekkjarins. Það er síðan von foreldranna að þetta forskot haldist alveg út skólagönguna og að það skjóti hönum töluvert áleiðis á beinu brautinni í lífinu.

Já það er vandlifað og sennilega miklu auðveldara að eiga heima á Íslandi þar sem foreldrar þurfa ekki að kveljast yfir svona vali. Ég læt svo fylgja með mynd af nokkrum framúrskarandi ungum mönnum sem fóru í grettukeppni í dyragarðinum fyrir nokkrum viku síðan. Þetta eru þeir Egill Bjarni og Einar Árni Gíslasynir ásamt Ólafi Stefáni.

11.10.06

Ljúfir tónar

Á disknum sem fylgdi kvikmyndinni Garden State voru mörg fábær lög. Eitt þeirra, I Just Don't Think I´ll Ever Get Over You, var eftir Colin Hay og röddin hljómaði einhvern vegin kunnuglega, en mér fannst hreimurinn samt framandi, kannski afrískur. Zach Braff, sem leikstýrði og fór með aðalhlutverkið, kann vel að meta tónlistina hans og Hay hefur meira að segja komið fram í Scrubs þar sem Braff leikur J.D. Eftir smá grúsk kom síðan í ljós að Colin Hay er enginn nýgræðingur í tónlistinni. Hann er fyrrum forsprakki og söngvari áströlsku gæðahljómsveitarinnar Men At Work. 14 ára gamall flutti hann frá Skotlandi til Ástralíu og þess vegna er hreimurinn kannski eins og hann er. En nú er hann einn með gítarinn og syngur gamla slagara í bland við nýtt efni. Nýju lögin hans eru frábær. Hann syngur ekki um sex, drugs and rock and roll, en yrkir frekar um kaffi og te, strendur, öldur og sólarlagið og það að fara snemma heim úr partíum. Hljómar kannski eins og að einhver hafi farið í meðferð en ég veit ekkert um það.
Á þessari síðu má heyra tvö lög sem mér þykja frábær með honum.
Beautiful World og Waiting for my ship...
Þarna er líka að finna lagið Overkill sem hann söng með Men At Work á sínum tíma.
http://profile.myspace.com/index.cfm?fuseaction=user.viewprofile&friendID=30538035
Og svo er bara að fleygja sér í sófann og láta streituna líða úr sér.

Fjöskyldumyndir



Þetta eru fjölskyldumyndir úr ferðinni góðu til West Virginia í lok ágúst. Finnur var svo alvarlegur á svipinn á neðri myndinni að mér fannst eins og að ég gæti verið að horfa fram í tímann um það bil 20 ár....

5.10.06

Íslenska, enska og heimska

Ég rakst nýlega á skemmtilega grein í The New York Times sem fjallaði um ensku sem heimstungumál. Þar kom fram að forseti Írans hafði nýlega reynt að banna ensk orð eins og helicopter, chat og pizza. Sumir segja að þetta sé tilgangslaus barátta þar sem að áhrif bandarískrar menningar aukist jafnt og þétt um heiminn. Einnig var bent á að það hafi í raun og veru alltaf verið til heimstunguál, og enska sé bara það nýjasta í röðinni á eftir grísku, látínu og frönsku.

Nú eru komnar fram hugmyndir frá The British Counsel um að flýta útbreiðslu ensku með því að byrja kenna hana við yngri aldur. En það eru einnig uppi hugmyndir um að kenna annað tungumál sem gæti þjónað sama tilgangi. Það tungumál er búið til úr einfaldri ensku og höfundurinn, Jean-Paul Nerrière, nefnir Globish. Mér finnst upplagt að kalla það heimsku.
Heimska hefði orðaforða upp á c.a. 1500 orð og þannig væri hægt að tjá sig (þó á klunnalega hátt sé) um nánast hvað sem er. Nephew yrði son of my brother/sister og kitchen gæti verðið place where you cook your food.
Nerrière, (Frakki sem var yfirmaður hjá IBM), fékk hugmyndina að tungumálinu á viðskiptaferðum sínum um Asíu þar sem hann tók eftir því að samskipti hans á "ensku" við Japani og Kóreubúa voru miklu þjálli og auðveldari en þegar bandarískir samstarfsmenn hans reyndu að gera hið sama. Það getur reynt mikið á þolraunir fólks sem hefur ensku að móðurmáli að hlusta á aðra reyna að tjá sig á ensku og því segir hann að það þurfi hreinlega að líka að kenna fólki sem hefur ensku að móðurmáli þetta nýja tungumál! Nerrière viðurkennir að lokum að heimska sé ekki eiginlegt tungumál þar sem að tungumál eigi sér yfirleitt rætur í menningu og þannig komi t.d. aldrei til með að verða skrifaðar bókmenntir á heimsku.
En er heimska þegar töluð á Íslandi? Er hún ekki tungumálið sem krakkarnir tala áður en þeir byrja að læra ensku í skólanum? Einu sinni komu fyrrverandi host- foreldrar pabba í heimsókn til Íslands frá því að hann var skiptinemi í Bandaríkjunum, og nágranni okkar, 10-12 ára, átti ekki í nokkrum vandræðum með að ræða við þau þótt hann hefði aldrei verið í enskukennslu. Foreldrar - kennið börnum ykkar heimsku! Heimska er tækifæri framtíðarinnar...