9.1.08

Eitt bros - eitt tár

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.

Svo segir í Einræðum Starkaðar, en eftir úrslitin í NH í gær má kannski segja að það hæfi betur að segja:

Eitt tár getur dimmu í dagsljós breytt

Já úrslitin voru þvert á allar kannanir og þetta verður ofsalega spennandi áfram.
En hvað veldur? Menn hafa mikið klórað sér í hausnum yfir því í dag.

Sumir halda að fólk hafi hallað sér að Hillary eftir kappræðurnar á laugardag og líka eftir að hún lét glitta í tár og sýndi þannig að hún væri mannleg. Ég held að það sé mikið til í því. Það voru svo margir óákveðnir fram á síðustu stundu. En fleira hefur verið tínt til. Kannanirnar spáðu rétt fyrir hjá repúblikönum en voru allar vitlausar hjá demókrötum. Og af þeim óákveðnu munaði bara 3 prósentustigum á þeim sem snéru sér á endanum að Hillary og þeim sem kusu Obama.

Ein tilgátan er sú að hér sé um að ræða rasisma, að fólk sem ekki vill kjósa svartan mann sé fólkið sem ekki svari í könnunum eða segist ætla að kjósa eitthvað annað ef hringt er í það.

En hvers vegna gerðist þetta ekki í Iowa? Kannski er það mikill munur á fólkinu í þessum tveimur fylkjum. Kannski er það vegna þess að um er að ræða opna fundi (caucus) í Iowa en í New Hampshire fara fram hefðbundnar kosningar með kjörseðlum.

Ég held að Hillary hafi fengið til sín samúðarfylgi eftir að hún táraðist. Síðan sendu þau Bill til að tala Obama niður í háskólabæjunum þar sem fylgi hans var mest.

Maður vonar bara að baráttan verði ekki of blóðug, en ég hef það á tilfinningunni að Clinton maskínan svífist einskis.

En auðvitað yrðu þau öll ágætis forsetar Obama, Hillary, og Edwards, en það yrði náttúrulega frábært ef kona eða blökkumaður yrði forseti í fyrsta skipti.

4 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég er sammála, hversu magnað yrði það fyrir þetta guðsvolaða land sem þú býrð í hehe... að koma okkur á óvart og breyta hressilega til, kona eða blökkumaður, og meira en það, álitlegir forsetar bæði tvö sem er náttúrlega kannski aðalmálið. Ég fylgist spennt með héðan úr Svíahreppi ;o) bið að heilsa í bæinn
Gréta Bergrún

5:36 f.h.  
Blogger Oddur Ólafsson sagði...

Takk fyrir innlitið Gréta. Já þetta verður spennandi, þess vegna er gaman að eiga heima hérna akkurat núna!

Ertu nokkuð orðin alvarlega sænsk-sködduð?

Bestu kveðjur-

8:02 f.h.  
Blogger Ásgrímur Angantýsson sagði...

Sæll frændi, gleðilegt ár og takk fyrir það gamla!

Flott greinin og viðtalið við Meredith. Og áfram Obama!

Bestu kveðjur til ykkar allra úr Álfheimunum.

7:18 e.h.  
Blogger Oddur Ólafsson sagði...

Gaman að heyra frá þér, vona að þið hafið það öll gott.

Já ég vona að Obama gangi vel, liggur við að mann langi í ríkisborgararétt til að geta kosið...

Kveðjur-

8:38 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim