4.1.08

Jarðskjálftinn í Iowa

Úrslitin í Iowa voru söguleg. Obama tók þetta með glæsibrag. Fjölmiðlarnir hér tala um jarðskjálfta. Það hafa nánast allir hrifist með, íhaldsamir blaðamenn eins og Tony Blankley og David Brooks eru sammála um að úrslitin séu söguleg og að hér sé eitthvað stórt og mikið að gerast. Tony Blankley sagði að Obama væri blanda af John F Kennedy og Martin Luther King. Ekki leiðum að líkjast.

Ég las bækurnar hans Obama um jólin. Sú fyrri er ævisaga hans og stórmerkileg og sú seinni fjallar um hans pólitísku skoðanir. Hann er einstaklega vel skrifandi og ekki er hann síðri ræðumaður. Ræðan hans í Iowa eftir sigurinn var frábær, hann talaði af hógværð og þakkaði kjósendum og talaði til kjósenda en ekki eingöngu um sjálfan sig.

Ræða Hillary var ólík, svona ég um mig frá mér til mín ræða. Á bak við Obama glitti í unga stuðningsmenn hans en myndin af Hillary minnti á vaxmynd af Hvíta húsi Clintons. Þar var Bill, og Madaleine Albright, og allir slegnir yfir ósigrinum.

Nú verður hrikalega spennandi að fylgjast með því hvernig allt fer í New Hampshire. Íbúarnir þar telja sig vera mjög sjálfstæða og vilja meina að úrslitin í Iowa stýri því ekki hvernig þeir koma til með að kjósa, en kannanir virðast samt benda til þess að svo verði.

Það yrði náttúrulega einstaklega frábært ef Obama færi alla leið, það er nánast ekki hægt að hugsa sér mann með ólíkari bakgrunn en núverandi forseta. Alinn upp af einstæðir móður og ömmu og afa, átti heima í nokkur ár í Indónesíu og á fullt af ættingjum í Kenía sem sumir hverjir búa í kofum úti í sveit.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim