11.7.07

Landlæknir BNA: Læknir eða strengjabrúða?

Var að lesa magnaða grein á NY Times vefnum um það hvernig núverandi stjórnvöld hér í landi tækifæranna taka pólitík óhikað fram fyrir vísindi og almenna heilbrigða skynsemi. Maður vissi svo sem um þetta sumt, sérstaklega hvað varðar hlýnun jarðarinnar, en nú hefur þingnefnd verið að yfirheyra fyrrverandi landlækna Bandaríkjanna til að reyna að komast að því hvort þeir hafi verið beittir óhóflegum pólitískum þrýstingi. Svarið er já.

Richard H. Carmona, landlæknir Bandaríkjanna frá 2002-2006, greindi frá því að stjórnvöld hafi hvað eftir annað reynt að draga úr innihaldi eða halda utan dreifingar mikilvægum heilsufarsskýrslum vegna pólitískra hagsmuna.

Hér eru nokkrir góðir punktar frá Dr. Carmona.

Reynt var að halda aftur af og draga úr orðalagi skýrslu sem sýndi fram á að óbeinar reykingar eru jafnvel hættulegri en áður var talið. Þegar stjórnvöld höfðuðu mál gegn tóbaksframleiðendum var honum ráðlagt gegn því að koma fram sem vitni við réttarhöldin.

Hann mátti hvorki tala né gefa út skýrslur um fósturvísastofnfrumur, neyðargetnaðarvarnir, geð-, fangelsis-, eða alheimsheilbrigðismál. Sumum af þessum umræðuefnum var eytt úr ræðum sem hann hafði samið.

Í einhverjum tilvikum mætti hann á fundi hlaðinn niðurstöðum vísindamanna, en það vildi enginn hlusta vegna þess að það var búið að ákveða stefnuna fyrir fram. Gott dæmi um þetta er kynlífsfræðsla, en stjórnin var búin að ákveða að skírlífisáróður yrði aðaláherslan sama hvað öllum rannsóknaniðurstöðum liði.

Hann var lattur til að fara á ólympíuleika fatlaðra vegna þess að samtökin sem standa fyrir þeim eru allt of tengd Kennedy fjölskyldunni.

Honum var gert að minnast þrisvar á Bush forseta á hverri blaðsíðu sérhverrar ræðu sem hann flutti.

Kemur ef til vill ekki á óvart að hann var ekki beðinn að sitja önnur 4 ár í starfi. Þeir fundu líka einn góðan kollega með ríkulegan skammt af hommafóbíu sem þeir ætla að sverja næst í embættið.

Og svo veittu þeir opinberu fé til sértrúarsafnaðar til að stunda afeitrun eiturlyfjafíkla.
Ó nei, fyrigefið þið mér, það var ríkisstjórn Íslands sem gerði það!

Þess má geta að Ólafur Ólafsson landlæknir var síðasti íslenski landlæknirinn sem ekki heyrði undir heilbrigðisráðuneytið, hann var skipaður af forseta og var ráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar. Þegar hann hætti var lögunum breytt og landlæknisembættið heyrir nú undir heilbrigðismálaráðuneytið.

Það er kannski víðar en hér vestra sem menn vilja geta haft góða stjórn á embættismönnum, landlæknum sem öðrum.

2 Ummæli:

Blogger Berglind Rós Magnúsdóttir sagði...

Áhugaverð samantekt hjá þér Oddur og eins og þú segir, kemur svo sem ekki á óvart, en alltaf gott þegar svona kemst í hámæli. Held að mynd Moore eigi einnig eftir að hrista vel upp í valdhöfum.

10:12 e.h.  
Blogger Oddur Ólafsson sagði...

Verð að fara að sjá myndina, annars er maður búinn að heyra um allt of mikið úr henni.

9:51 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim