19.1.08

Þegar


Ég horfði á fína írska mynd í gærkvöldi, ljúfsára ástarsögu sem nefnist Once.

Hún fjallar um götutónlistarmann í Dublin og það hvernig hann kynnist stúlku sem selur rósir á götum úti, en fær að æfa sig á píanó í hádeginum í hljóðfæraverslun í nágrenninu.

Þetta er óvenjuleg ódýr indie mynd og tónlistin er aðalatriðið, söguþráðurinn er borinn uppi af lögunum.

Leikstjórinn, John Carney, var einu sinni bassaleikari í hljómsveitinni The Frames, en aðalleikarinn Glen Hansard, er einmitt söngvari og gítarleikari í þeirri sömu sveit. Carney hætti í hljómsveitinni til að snúa sér að kvikmyndagerð. Aðalleikonan, Markéta Irglová, er líka tónlistarmaður.

Tónlistin er frábær, manni finnst að maður sé að hlusta á Damien Rice, eða náskyldan frænda hans. Þetta er líka allt ekta, tekið meira og minna upp live, og lögin og textarnir eru eftir þau skötuhjúin. Hér er Myspace síðan með tónlistinni úr myndinn.

John Carney gekk með hugmyndina að myndinni í magananum og ætlaði að fyrst að hafa reynda leikara í myndinni (sem gætu þó sungið), en ákvað í staðinn að láta þau taka þetta að sér, reynda tónlistarmenn en ekki leikara. Hansard hefur þó áður komið fram í mynd, hann lék lítið hlutverk í myndinni The Commitments.

Það er fyndið að sjá gítarinn sem hann notar í myndinni, beinlínis gatslitinn kassagítar. Sjaldan séð jafn mikið notað hlóðfæri.

Titill myndarinnar segir leikstórinn vísa til þess eiginleika írskra karlmanna (og karla út um allan heim) að láta aldrei verða af draumunum, margir séu hæfileikaríkir og tali (sérstaklega yfir einum Guinness) um að fara nú að drífa sig í að gera eitthvað af viti. En svo verður aldrei neitt úr neinu.

- Once I´m done doing ...... I´ll go ahead and....
Og svona heldur lífið áfram.





0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim