Dagur í Disney World
Á fimmtudaginn skelltum við Ólafur Stefán okkur í Disney World. Þær Björk og Berglind komu með okkur og við skildum þær síðan eftir í Orlando. Ég var nú bara svona mátulega spenntur fyrir þessu enda margir í kring um mig búnir að vara mig við, bæði að það yrði dýrt og að dagurinn yrði langur og strangur og börnin alveg spólandi vitlaus af spenningi og myndu leka niður í síendurteknum frekjuköstum. En það brugðust allar hrakspár og dagurinn var virkilega skemmtilegur.
Við fengum gott veður, skýjað en ekki of heitt og alls ekki of margir í garðinum. Við ákváðum að taka bara fyrir The Magic Kingdom og þegar þangað var komið fékk ég deja vu tilfinningu, þ.e. mér fannst eins og ég hafi verið þarna áður. Og auðvitað hafði ég verið þarna áður, 10 ára gamall með mömmu og pabba og Lýð og Sigfúsi. Ég mundi eftir að hafa farið í einhverja skemmtigarða en ekki nákvæmlega að ég hafi verið þarna. Og það sem kom mér mest á óvart var að allt er eins og það var, það virðist nánast engu hafa verið breytt. Ég man hvað sumt af þessu virkaði sterkt á mig fyrir bráðum 25 árum síðan. Þar má nefna Progress sýninguna og síðast en ekki síst Space Mountain sem er rússíbani inni í húsi. Það er ekkert auðvelt að fara í rússíbanaferð í kolniðamyrkri inni í húsi og ég þoldi þetta sennnilga betur sem barn. Ólafur rétt slapp hvað hæðarmörkin varðar og gat farið í þennan rússíbana og stóð sig mjög vel. Ég held þó að Björk hafi ekki verið mér neitt sérstaklega þakklát fyrir að hafa drifið alla í Space Mountain, hún var lítið spennt fyrir rússíbönum það sem eftir lifði dags.
Þau Björk og Ólafur Stefán voru mjög prúð og stillt og urðu aldrei yfirkeyrð af spenningi. Enda erum við bara rétt svo mátulega hrifin af Disney dæminu öllu saman og reynum eins og við mögulega getum að komast hjá því að leyfa strákunum að horfa á þessar teiknimyndir.
Ólafur hefur hinsvegar séð Pirates of the Caribbean og við fórum í einhverskonar bátsferð í gegn um sjóræningjasýningu. Við þurftum reyndar að fara á klósettið fyrir ferðina og það vildi þannig til að maður þurfti að fara í gegnum búð með allskonar sjóræningjadrasli til að komast á klósettið. Þá hófust samningaviðræður um hvað eða hvort eitthvað ætti að kaupa. Ég snéri mér út úr því með því að lofa að athuga málið eftir ferðina í þeirri vona að hann myndi gleyma þessu á meðan. En þeir hjá Disney vita alveg hvað þeir eru að gera og þegar ferðin var búin var útgangurinn einmitt aftast í búðinni....
Ég gat komist hjá því að kaupa sverð og byssu, en endaði með að kaupa sjóræningjahatt og sjóræningjalepp (smá leðurpjattla og kostaði 10 dollara!). Ég gat hinsvegar ekki betur séð en að sjóræningjarifflarnir sem voru til sölu í búðinni væru nánast alveg eins og rifflarnir sem voru keyptir þarna 1982 og eru sennilega enn til í Oddeyrargötunni og vekja áreiðanlega mikla lukku nú sem endra nær.
2 Ummæli:
Takk fyrir skemmtilegan dag. sjáumst svo í síðbúnu thanksgiving á morgun ;)
Sæl verið þið elsku fólkið mitt
Til hamingju með Thanksgiving.
Vonandi hefur ferðin gengið vel til New York. það var aldeilis gaman að drengirnir gátu farið með og muna nú eftir langömmu með allt sitt góða fólk í kringum sig.
Hér er snjór og skíðafæri og allir í fjallinu. Ég hef nóg að gera við að sækja markaði og tónleika. Í gærkvöld fórum við Heiðdís á látbragðsleik í Dynheimum og var það mjög gaman. Kristján Ingimarsson látbragðsleikari lék einleik og fór á kostum.
Heyri frá ykkur síðar.
Mamma
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim