5.10.06

Íslenska, enska og heimska

Ég rakst nýlega á skemmtilega grein í The New York Times sem fjallaði um ensku sem heimstungumál. Þar kom fram að forseti Írans hafði nýlega reynt að banna ensk orð eins og helicopter, chat og pizza. Sumir segja að þetta sé tilgangslaus barátta þar sem að áhrif bandarískrar menningar aukist jafnt og þétt um heiminn. Einnig var bent á að það hafi í raun og veru alltaf verið til heimstunguál, og enska sé bara það nýjasta í röðinni á eftir grísku, látínu og frönsku.

Nú eru komnar fram hugmyndir frá The British Counsel um að flýta útbreiðslu ensku með því að byrja kenna hana við yngri aldur. En það eru einnig uppi hugmyndir um að kenna annað tungumál sem gæti þjónað sama tilgangi. Það tungumál er búið til úr einfaldri ensku og höfundurinn, Jean-Paul Nerrière, nefnir Globish. Mér finnst upplagt að kalla það heimsku.
Heimska hefði orðaforða upp á c.a. 1500 orð og þannig væri hægt að tjá sig (þó á klunnalega hátt sé) um nánast hvað sem er. Nephew yrði son of my brother/sister og kitchen gæti verðið place where you cook your food.
Nerrière, (Frakki sem var yfirmaður hjá IBM), fékk hugmyndina að tungumálinu á viðskiptaferðum sínum um Asíu þar sem hann tók eftir því að samskipti hans á "ensku" við Japani og Kóreubúa voru miklu þjálli og auðveldari en þegar bandarískir samstarfsmenn hans reyndu að gera hið sama. Það getur reynt mikið á þolraunir fólks sem hefur ensku að móðurmáli að hlusta á aðra reyna að tjá sig á ensku og því segir hann að það þurfi hreinlega að líka að kenna fólki sem hefur ensku að móðurmáli þetta nýja tungumál! Nerrière viðurkennir að lokum að heimska sé ekki eiginlegt tungumál þar sem að tungumál eigi sér yfirleitt rætur í menningu og þannig komi t.d. aldrei til með að verða skrifaðar bókmenntir á heimsku.
En er heimska þegar töluð á Íslandi? Er hún ekki tungumálið sem krakkarnir tala áður en þeir byrja að læra ensku í skólanum? Einu sinni komu fyrrverandi host- foreldrar pabba í heimsókn til Íslands frá því að hann var skiptinemi í Bandaríkjunum, og nágranni okkar, 10-12 ára, átti ekki í nokkrum vandræðum með að ræða við þau þótt hann hefði aldrei verið í enskukennslu. Foreldrar - kennið börnum ykkar heimsku! Heimska er tækifæri framtíðarinnar...

2 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Vá, mér líður hálfkjánalega að vera í ensku í HÍ, þar sem Heimska mín er bara nokkuð góð og kannski alveg óþarft að vera að reyna að læra betri ensku þar sem allir í framtíðinni munu hvort sem er vera góðir....kannski sé skynsamlegra til að hafa eitthvað forskot að skella sér frekar a spænskun, arabísku eða kínverskuna!

6:13 f.h.  
Blogger Oddur Ólafsson sagði...

Það er fínt hjá þér að vera í ensku. Þú getur þá kennt ensku og heimsku út um allt, kemur hingað til USA til að kenna þeim heimsku....
En að öðru, ég reyndi að senda athugasemd á bloggið þitt en það gekk ekki. Ég var harmi sleginn að frétta að þú værir hætt að blogga. Ég veit ekki hvort voru verri fréttir, þetta, eða fylling Hálslóns sem gerðist um svipað leyti...

11:05 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim