3.12.06

Venus, Mars og testósterón



Karlar eru frá Mars, konur frá Venus og himingeiminn sjálfan ber á milli og því ekki nema von að kynjunum skuli ganga jafn illa og raun ber vitni að skilja hvort annað. Fæstir leggja í að fara frá öðrum hnettinum til hins, en gæti frásaga af slíku ferðalagi ekki aukið skilning okkar á kynjunum? Ég fékk nýlega disk með sumu af því besta af útvarpsþættinum This American Life, sem er skemmtilegur útvarpsþáttur frá Chicago Public Radio. Þar var að finna viðtal við Griffin Hansburry sem fæddist stúlka og var lesbía í háskóla en ákvað að láta breyta sér í karl. Lífinu skiptir hann í fyrir og eftir, ekki fyrir og eftir kynskiptaaðgerð, heldur fyrir og eftir testósterón. Hann var settur á stóra skammta af testósteróni og breytingarnar voru miklar og snarar.

Fyrsta breytingin og sú greinilegasta var hvað kynhvötina varðar:
Fyrir testósterón: Ég var kannski í neðanjarðarlestinni og sá konu sem mér leist vel á. Ég fór að spá í hvert hún skyldi vera að fara, hvað hún væri að lesa og hvort ég gæti hitt hana og ef svo hvað ég myndi þá segja við hana.
Eftri testósterón: Ég var í neðanjarðarlestinni og sá konu sem mér leist vel á. Hún var kannski ekki gífurlega aðlagandi en kannski var bara eitthvað eitt sem ég sá við hana. En það var nóg því nú var eins og það kæmist bara eitt að í hausnum á mér. Það var ekkert sagt og þetta var eins og að vera að horfa á grófa klámmynd og það var ekki hægt að slökkva. Núna vissi ég hvernig það var að vera unglingsstrákur.

Fyrir testósterón: Ég var cool lesbía og las upp ljóð sem ég orti um konur sem ég sá á förnum vegi.
Eftir testósterón: Ég var á gangi eftir götu og fór að horfa á rassinn á konu sem var á undan mér. Og ég glápti og glápti, en lítil rödd í hausnum á mér sagði, ekki horfa, ekki horfa. Ég gat varla hætt en hraðaði mér þó að lokum fram úr henni.
Og þegar ég var kominn fram úr byrjaði rödd að hlóma í heilanum á mér sem sagði mér ítrekað að snúa mér við og skoða á henni brjóstin. Og það litla sem eftir var af femíníska heilanum í mér sagði: Svínið þitt! Þú skalt ekki dirfast að snúa þér við bara til að skoða á henni brjóstin!!! Og ég barðist við sjálfan mig um stund, en snéri mér að lokum við og tók út á henni brjóstin.

Og þær voru fleiri stereotypurnar sem voru styrktar í þessari frásögn eins og t.d:
Fyrir testósterón: Ég átti auðvelt með að mynda vinasambönd við konur og átti auðvelt með að gráta.
Eftir testósterón: Ég á erfitt með eignast góða vini og get varla grátið. Ef ég finn að ég þarf að gráta loka ég mig af inni í herbergi en get yfirleitt ekki almennilega grátið, það kemur einhverskonar aumkunarverður ekki og yfirleitt koma ekki tár eins og áður.

Ja hérna hér, en þetta var ekki allt. Hann var spurður út í aðrar breytingar og sagði m.a. að þó hann gæti ekki sannað að eftirfarandi breyting væri vegna testósteróns þá hefði hann nú miklu meir áhuga á vísindum en áður. Þá kom smá þögn og síðan sagði Alex Blumberg (sá sem tók viðtalið) þetta: Þú gerir þér grein fyrir því að með þessum orðum þínum ertu að senda okkur hundrað ár aftur í tímann! En Hansburry bætti um betur og sagði- mér finnst líka að ég skilji eðlisfræði á einhvern hátt sem ég ekki gerði áður....

En hvernig kona var hann, og hvernig karl er hann í dag? Hann virtist nú ekki hafa verið sérstaklega undir það búinn en telur sig hafa breyst úr cool lesbíu (á mótorhjóli og í leðurgalla) í fremur nördaralegan karl (lágvaxinn og mjór, og hárið farið að þynnast). Hann þurfti að læra upp á nýtt að tala við konur, en þær töldu hann margar vera kvenhatara, einhverskonar Rush Limbaugh týpu. Hann þarf líka oft að ljúga um fortíð sína, það væri t.d. erfitt fyrir hann að útskýra fyrir fólki hversvegna hann útskrifaðist frá góðum kvennaháskóla, og hann neyðist til þess að segjast hafa farið í annan skóla rétt hjá sem er eingöngum fyrir karla en er ekki jafn góður.

En viðtalið endaði allt á jákvæðu nótunum og Hansburry sagði að fyrst að hann gat gengið í gegn um þessar breytingar allar saman þá sé fátt til sem sé ómögulegt. Alex Blumberg spurði síðan hvort að hann væri ekki oft beðinn um ráðleggingar í ástarmálum og Hansburry sagði að hann og vinur hans hefðu látið sér detta í hug að stofna veffyrirtæki í þeim tilgangi og þeir gætu þá auglýst: Áttu erfitt með að skilja hann/hana? Talaðu við okkur og fáðu ráðgjöf frá karli sem einu sinni var kona.....

Þetta líf, þetta líf.

6 Ummæli:

Blogger Berglind Rós Magnúsdóttir sagði...

Þoli ekki eðlishyggju og þetta er nú það grófasta sem ég hef lesið lengi. Það er held ég hvergi eins mikið alið á eðlishyggju eins og í BNA. það er alls staðar og allt um kring og t.d. fyrst þegar ég var að kynna mig fyrir vinum Ása úr málvísindunum og sagðist hafa lesið mikið í kynjafræði héldu allir að ég væri sérfræðingur í mismunandi "eðli" kynjanna. Ef talið berst að kynjum hér fer umræðan strax út í eðlishyggju og þá er í raun búið að loka á allar rökræður - því jú við fæðumst bara svona eða hinsegin og því þannig séð engu hægt að breyta. Sveiattan! Fjölmiðlar hér eru stöðugt að grafa upp einhverjar svona sögur til að reyna að "staðfesta" hinn meinta sannleika. Við vitum að hormónaflæðið í líkamanum þarf að vera í jafnvægi hvort sem við erum konur og karlar til að við getum talist frísk og það hefur augljóslega ekki verið í jafnvægi hjá þessum/þessari.

5:30 e.h.  
Blogger Oddur Ólafsson sagði...

Já það er náttúrulega ekki hægt að draga djúpar ályktanir eða lærdóm af svonalöguðu þar sem n=1.

5:45 f.h.  
Blogger Berglind Rós Magnúsdóttir sagði...

Ekki hægt að taka mark á manneskju sem segist skilja eðlisfræði betur við að taka inn testósterón. Er augljóslega að gangast upp í ýktustu staðalmyndunum. Ættum kannski að mæla með testósteróninntöku fyrir alla sem fara á stærðfræðibraut! Eins mætti spyrja sig hvort gagnkynhneigð kona sem færi að taka inn testósterón færi að hugsa með sama hætti um karla - eða konur?? Hvað segirðu um það?

2:03 e.h.  
Blogger Oddur Ólafsson sagði...

Eins og ég sagði þá er í raun ekki hægt að draga miklar ályktanir af frásögn eins eistaklings af svona reynslu. Og þetta er í fyrsta skiptið sem maður heyrir einhvern segja þetta með vísindin og eðlisfræðina, ég man a.m.k. ekki eftir því að hafa heyrt um vaxtarræktar stera-fólk sem kastar frá sér lóðunum og fer að lesa eðlisfræðibækur eftir fyrstu testósterónsprautuna....

Hvað gerist ef gagnkynhneigð kona er sett á háskammta testósterón? Ég veit það ekki en geri ráð fyri að hún yrði áfram gagnkynhneigð, en væntanlega breytist kynhvötin eitthvað.

Mér fannst að hann væri á einlægan hátt að greina frá sinni reynslu, en kannski var hann bara að spila með hlustendur með því að mata okkur með upplýsingum sem passa beint við allar stereotypurnar (karla eiga erfitt með að gráta og svo framvegis).

Það myndi óneitanlega vera áhugavert ef gerð yrði tvíblind rannsókn á þessu á hópi kvenna sem vilja breyta um kyn, en hinsvegar er erfitt að vera blindur gagnvart áhrifum testósteróns. T.d.- hvort skyldi það nú vera testósterón eða saltvatn sem er að valda öllum þessum skeggvexti??

Já það er vandlifað...

10:10 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ut fra minni reynslu er thetta med edlisfraedina ekki altaekt thar sem eg hef alltaf skilid edlisfraedi betur en 99% af ollum korlum... En eg get samt vel imyndad mer ad thad se satt i hans tilviki, med thvi ad testosteronsprauturnar auki sjalfstraust hans a tvennan hatt. Um leid og hann faer testosteron upplifir hann sig meira sem karl, og vanlidan sem fylgir thvi ad vera "i vitlausa likamanum" er tha minni og thar med kannski eykst sjalfstraust hans og geta hans a morgum svidum. Auk thess spila inni fordomarnir gagnvart konum og visindum sem eru allsstadar i flestum ef ekki ollum vestraenum samfelogum og hafa snert thennan einstakling eins og alla. Hann hefur alist upp sem stelpa og tekid inn thessar hugmyndir medvitad eda omedvitad, thannig ad mer finnst nu trulegt ad um leid og hann finnur sig vera meiri karl tha faer hann meira sjalfstraust a thessu svidi, thar sem hann er ju ekki lengur bara vitlaus stelpa. Enda tjadi hann mikla vanlidan gagnvart thessari upplifun thar sem hann hafdi alltaf talid sig vera feminista og vildi ekki vidurkenna thessa upplifun... en sem sagt, thetta var hans upplifun ad skilja betur edlisfraedina, og sennilega hefdi prof ekki stadfest ad hann vaeri allt i einu ordinn Einstein!

12:48 e.h.  
Blogger Berglind Rós Magnúsdóttir sagði...

Var greinilega óvart á blogginu hennar Auðar síðast þegar ég skrifaði komment - semsé undir dulnefni. Alveg sammála þér Meredith, það er nefnilega svo erfitt að skilja í raun að áhrif testósteróns og svo þau menningarlegu áhrif sem fylgja því að skipta um kyn og vera loks af því kyni sem mann langaði alltaf að vera, þ.e. karl og enginn smá karl. Tvíblind rannsókn væri ekki nóg til þess að mínu mati.

2:00 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim